Þor­steinn Þor­geirs­son, fram­kvæmdar­stjóri Avis bíla­leigunnar og Steingrímur Birgisson, forstjóri Höldur-Bílaleigu Akureyrar eru sammála um að um­ræðan um gjald­töku vegna nagla­dekkja sé galin. Þorsteinn segir að ís­lensk stjórn­völd verði að á­kveða hvort þau vilji fá ferða­menn til landsins eða ekki.

Frétta­blaðið sagði frá því í á þriðjudag að í upp­færðri loft­gæða­á­ætlun Um­hverfis­stofnunar verður lagt til að sveitar­fé­lög fái heimild til að leggja á skatt vegna nagla­dekkja. Í Noregi er gjaldið um 20.000 ís­lenskar krónur.

„Það er mikið ýtt á eftir að bíla­leigu­bílar séu á nagla­dekkjum, því þetta eru oft ó­vanir bíl­stjórar, það er hálka hér og þar á landinu og þú veist aldrei hvert bílinn er að fara. Þannig við viljum frekar hafa meira af nagla­dekkjum en minna,“ segir Þor­steinn og telur hann að skatt­lagning á nagla­dekkja­not­endur sé ekki rétta leiðin.

„Í fyrsta lagi, vilja stjórn­völd fá ferða­menn? Ef já, þá þarf bíla­leigu­bíla. Ef þeir eiga að vera ó­öruggari, þá þurfa menn að taka sér­staka um­ræðu um það,“ segir Þor­steinn.

Hann segir að ferða­menn á bíla­leigu­bílum séu mest að ferðast á lands­byggðinni, en það kemur fyrir að þeir stoppi í nokkra daga í Reykja­vík.

„Það nær ekki nokkurri átt að fara rukka fólk fyrir að keyra inn í Reykja­vík. Það er erfitt í fram­kvæmd í sam­bandi við ferða­menn. Ef borgin myndi nenna að þrífa göturnar ein­staka sinnum, hætta að moka ryki og sandi, það myndi væntan­lega minnka rykið,“ segir Þor­steinn.

Nagladekkin öruggari í hálku

„Út frá öryggis­málum gagn­vart okkar ferða­mönnum sér­stak­lega sem eru ó­vanir að keyra í snjó og hálku og þekkja ekki slíkar að­stæður þá er þetta galið. Nagla­dekkin eru mun öruggari í hálku en önnur dekk. Í mínum huga, út frá öryggis­sjónar­miðum þá er gríðar­lega mikil­vægt að ferða­menn geti fengið bíla á nagla­dekkjum,“ segir Stein­grímur.

Hann segir að það sé ó­mögu­legt fyrir bíla­leigur að vita hvar ferða­mennirnir séu dags­dag­lega.

„Þeir gætu verið á Akur­eyri í dag, Kefla­vík á morgun og Reykja­vík á þriðja degi. Það væri von­laust að halda utan um þetta,“ segir Stein­grímur og telur hann að aukin slysa­hætta og tjón á bílum verði ef sam­þykkt verði að skattleggja nagla­dekk.

Þorsteinn segir að mikið sé ýtt eftir því að bílaleigubílar séu með nagladekk, enda eru ferðamenn oftast óvanir og hálka getur myndast fljótt á vegum landsins.
Fréttablaðið/Anton Brink