Þorsteinn Þorgeirsson, framkvæmdarstjóri Avis bílaleigunnar og Steingrímur Birgisson, forstjóri Höldur-Bílaleigu Akureyrar eru sammála um að umræðan um gjaldtöku vegna nagladekkja sé galin. Þorsteinn segir að íslensk stjórnvöld verði að ákveða hvort þau vilji fá ferðamenn til landsins eða ekki.
Fréttablaðið sagði frá því í á þriðjudag að í uppfærðri loftgæðaáætlun Umhverfisstofnunar verður lagt til að sveitarfélög fái heimild til að leggja á skatt vegna nagladekkja. Í Noregi er gjaldið um 20.000 íslenskar krónur.
„Það er mikið ýtt á eftir að bílaleigubílar séu á nagladekkjum, því þetta eru oft óvanir bílstjórar, það er hálka hér og þar á landinu og þú veist aldrei hvert bílinn er að fara. Þannig við viljum frekar hafa meira af nagladekkjum en minna,“ segir Þorsteinn og telur hann að skattlagning á nagladekkjanotendur sé ekki rétta leiðin.
„Í fyrsta lagi, vilja stjórnvöld fá ferðamenn? Ef já, þá þarf bílaleigubíla. Ef þeir eiga að vera óöruggari, þá þurfa menn að taka sérstaka umræðu um það,“ segir Þorsteinn.
Hann segir að ferðamenn á bílaleigubílum séu mest að ferðast á landsbyggðinni, en það kemur fyrir að þeir stoppi í nokkra daga í Reykjavík.
„Það nær ekki nokkurri átt að fara rukka fólk fyrir að keyra inn í Reykjavík. Það er erfitt í framkvæmd í sambandi við ferðamenn. Ef borgin myndi nenna að þrífa göturnar einstaka sinnum, hætta að moka ryki og sandi, það myndi væntanlega minnka rykið,“ segir Þorsteinn.
Nagladekkin öruggari í hálku
„Út frá öryggismálum gagnvart okkar ferðamönnum sérstaklega sem eru óvanir að keyra í snjó og hálku og þekkja ekki slíkar aðstæður þá er þetta galið. Nagladekkin eru mun öruggari í hálku en önnur dekk. Í mínum huga, út frá öryggissjónarmiðum þá er gríðarlega mikilvægt að ferðamenn geti fengið bíla á nagladekkjum,“ segir Steingrímur.
Hann segir að það sé ómögulegt fyrir bílaleigur að vita hvar ferðamennirnir séu dagsdaglega.
„Þeir gætu verið á Akureyri í dag, Keflavík á morgun og Reykjavík á þriðja degi. Það væri vonlaust að halda utan um þetta,“ segir Steingrímur og telur hann að aukin slysahætta og tjón á bílum verði ef samþykkt verði að skattleggja nagladekk.
