„Það er ekki þægilegt neinu sveitarfélagi að búa við umhverfi þar sem ráðuneyti kemur undanþágum frá kvöðum vegna sölu jarða yfir á viðkomandi sveitarfélag,“ segir byggðarráð Húnaþings vestra í harðorðri bókun.
Vísar ráðið til þess að matvælaráðuneytið óskaði eftir því að Húnaþing vestra staðfesti nýtingu jarðar Núpsdalstungu án búsetu.
Ráðuneytið hafi áður samþykkt sölu Núpsdalstungu til kaupanda sem hafi átt yfir 1.500 hektara lands, gegn því að búseta yrði skylda.
„Er því gagnrýnt að ráðuneytið reyni að fría sig ábyrgð og varpi henni yfir á sveitarfélagið eingöngu, sérlega þar sem þessi ákvarðanataka er samkvæmt lögum á herðum ráðuneytisins en ekki sveitarfélagsins. Vakin er athygli á að afstaða sveitarfélagsins snýr ekki sérstaklega að viðkomandi jörð heldur því viðhorfi sveitarstjórnar að jarðir eigi ekki að safnast á fárra manna hendur,“ bókar byggðarráðið og hefur endursent erindið í ráðuneytið.
„Jafnframt þarf ráðuneytið að setja sér skýrari stefnu varðandi nýtingu lands til framtíðar og ákveða hvort það standi almennt til að fylgja jarðalögum varðandi jarðasöfnun eða hvort það eigi einungis við á tyllidögum,“ er ítrekað í bókun byggðarráðsins.