Höfuðdagur var í gær, þann 29. ágúst, og hefur lengi verið sú þjóðtrú að með höfuðdegi komi fram veðurbreytingar sem haldist næstu þrjár vikur á eftir. Yfirleitt var trúin sú að hefði veður verið þrálátt með einhverjum hætti myndi höfuðdagur bera breytingar á því í skauti sér. Fréttablaðið fékk tvo veðurfræðinga til að lesa í skýin og meta það sem af er sumri.

„Það er misjafnt hvað fólk telur vera gott sumar en oftast er fólk að spá í hita, úrkomu og sólskin,“ segir Sigurður Þ. Ragnarsson, yfirleitt þekktur sem Siggi stormur. „Það má kannski segja að þetta sumar hafi verið í lakari kantinum þó fram undan séu spennandi hlýindi þegar horft er aðeins inn í september,“ segir Sigurður og bendir á að sumarið sé hvergi nærri búið enda teljist september vera sumarmánuður.

Ef horft er yfir sumarið í heild segir Sigurður það hafa verið nokkuð úrkomusamt og bendir hann fyrst á júní.

„Úrkomudagar í Reykjavík í júní voru 18 talsins sem skiluðu 66 millimetra úrkomu sem er yfir 52 prósentum meira en í meðalári. Í fyrra í sama mánuði voru úrkomudagarnir 20 en skiluðu aðeins 39 millimetrum af úrkomu,“ segir Sigurður og svipaða sögu sé að segja frá Akureyri. „Þar voru úrkomudagarnir 21 núna í júlí en 8 í fyrra. Í ár skiluðu þeir 47,5 millimetrum af sér en 12 millimetrum í fyrra,“ segir Sigurður.

Sigurður Þ. Ragnarsson, Siggi Stormur, veðurfræðingur

„Heilt yfir séð hefur þetta sumar verið kalt og úrkomusamt, meira en gengur og gerist,“ segir Sigurður.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur tekur í sama streng og segir að vissulega hafi sumarið verið nokkuð rysjótt.

„Það er þessi þráláti kuldapollur í háloftunum sem hefur stjórnað veðrinu hérna og gert það að verkum að ansi svalir dagar koma inn á milli. Hlýju dagana hefur svo eiginlega alveg vantað þangað til nú,“ segir Einar sem segir hlýindi á leiðinni og bendir á að hjátrúin á höfuðdag eigi sér ákveðna vísindalega skírskotun.

„Hjátrúin var sú að á höfuðdegi yrðu breytingar og ef veður var þrálátt með einhverjum hætti vikurnar á undan að þá kæmu fram breytingar þennan dag,“ segir Einar. „Það á sér alveg vísindalega skírskotun. Því um þetta leyti eða síðustu dagana í ágúst þá byrja vestanvindarnir í háloftunum að herða á sér.“

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur
Fréttablaðið/Anton Brink