Yfir­völd í kín­versku borginni Shenz­hen segja að yfir­borðs­sýni sem tekið var af frosnum kjúk­linga­vængjum hafi reynst já­kvætt fyrir kóróna­veirunni en vængirnir höfðu verið inn­fluttir frá Brasilíu.

Að því er kemur fram í frétt BBC um málið fylgjast heil­brigðis­yfir­völd í borginni vel með inn­fluttum mat og var sýnið úr kjúk­linga­vængjunum tekið vegna þessa.

Enginn sem hefur komið ná­lægt vængjunum hefur greinst með veiruna og reyndust sýni úr mat­vælum sem voru ná­lægt vængjunum nei­kvæð.

Að­eins einum degi áður en sýni úr vængjunum reyndist já­kvætt greindu kín­verskir miðlar frá því að veiran hafi fundist í Wuhu á um­búðum utan um frosnar rækjur sem voru inn­fluttar frá Ekvador.

Bæði til­fellin hafa gert það að verkum að óttast er að inn­flutt mat­væli gætu ollið því að far­aldurinn brjótist aftur út í Kína.

Frá því að far­aldurinn braust fyrst út í Kína seint á síðasta ári hafa hátt í 90 þúsund manns greinst með veiruna og tæp­lega 4700 látist en talið er að mun fleiri hafi í raun smitast en opin­berar tölur segja um.