Aðstoðarutanríkisráðherra Írans Seyed Abbas Araghchi segir að Bandaríkjamenn hafi óvart skotið niður sinn eigin dróna. Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í gær að bandaríska herskipið USS Boxer hafi skotið niður íranskan dróna sem flaug í tæplega kílómetra fjarlægð frá herskipinu.

Trump sagði að herskipið hafi skotið drónann niður sem varnarráðstöfun eftir að Íranar neituðu að fljúga honum burt þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir. Aðstoðarutanríkisráðherra Írans segir að þeir kannist ekki við það og segir það líklegt að Bandaríkjamenn hafi óvart skotið niður sinn eigin dróna.
Bandaríkin tóku niður eldflaugastýrikerfi og njósnakerfi Írans í síðasta mánuði með tölvuárás eftir að Íranir skutu niður bandarískan dróna. Íranar sögðu að dróninn hafi verið inni í íranskri flughelgi.

Ástandið hefur lengi verið eldfimt í Hórmussundi, sem er þröngt sund í Persaflóa og Ómanflóa en hátt í þriðjungur allra olíuflutninga á sjó í heiminum fer í gegnum sundið. Norðan við sundið er Íran en sunnan megin eru Sameinuðu arabísku furstadæmin og Óman.