„Nú eru þeir búnir að neyða okkur til að fremja umferðarlagabrot,“ segir Helga Árnadóttir, íbúi í Hleinahverfi í Garðabæ, um nýjustu vendingar í ágreiningsmáli hverfisbúanna við bæjaryfirvöld vegna umferðar um gamla Álftanesveginn.

Bæjaryfirvöld ákváðu að loka fyrir umferð um gamla Álftanesveginn vegna óska frá íbúum í svokölluðu Prýðahverfi sem er norðan við veginn. Íbúar í Hleinahverfi nærri Hrafnistu og íbúar í norðurbæ Hafnarfjarðar mótmæltu þar sem lokunin myndi kosta þá óþægindi við að aka lengri leiðir út úr hverfum sínum. Málið er í kæruferli en nýlega settu bæjaryfirvöld upp hraðahindranir á veginum.

„Þeir eru búnir að setja þrengingar á veginn með steypuklumpum svo við verðum að brjóta heila línu til að aka í gegn,“ segir Helga. „Mér finnst þetta hálfvitalegt. Ef löggan sér okkur og sektar okkur, hver á þá að borga það?“ spyr Helga sem kveður Hleinahverfisbúa afar ósátta.

„Bæjarstjórinn gekk hér í öll hús fyrir kosningar og lofaði öllu fögru; sagði að engu yrði breytt og veginum ekki lokað,“ segir Helga. Greinilega eigi ekki að standa við þau fyrirheit. Enda hafi bæjarstjórinn sagt á fundi fyrir kosningar að minni hagsmunir yrðu að víkja fyrir meiri og þá átt við að loka þyrfti veginum á endanum.

„Ég skil ekki það mat,“ segir Helga. „En fólkið í Prýðahverfinu vill ekki að við séum að aka þarna um, við erum eitthvað að trufla það. Þannig að við gamla fólkið megum bara éta það sem úti frýs.“