Ragn­heiður Sölva­dóttir, móðir drengs sem fæddist með tví­klofna vör og góm, segir heil­brigðis­kerfið hér á landi bæði ó­skil­virkt og þung­lama­legt. Fyrir helgina hafi sonur hennar, sem er á fjór­tánda ári, fengið bréf frá Sjúkra­tryggingum Ís­lands þess efnis að stofnunin taki ekki þátt í frekari niður­greiðslu vegna tann­réttinga nema hann fari í enn eitt endur­matið hjá tann­lækna­deild Há­skóla Ís­lands. Mál þeirra sé því í bið­stöðu.

„Við erum búin að standa í þessu ferli í bráðum níu ár, síðan hann var fimm ára gamall. Við fórum síðast í svona mat lok júní 2020, en þá var stutt síðan það var nýbúið að gera ná­kvæm­lega sama matið. Þetta er eitt­hvað nýtt fyrir­komu­lag hjá þeim en við vitum ekkert og erum bara alltaf í lausu lofti. Maður er búinn að fá upp í kok af þessu, það er eins og maður hafi ekki annað að gera en að fara með hann í endur­mat aftur og aftur,“ segir Ragn­heiður.

Sér­stak­lega erfitt til­felli

Líkt og fyrr segir er sonur Ragn­heiðar, Guð­mundur Sölvi, með tví­klofna vör og góm sem hún segir að sé skil­greint sem fæðingar­galli. Sér­fræðingar telji hans til­felli vera sér­stak­lega erfitt þar sem ekki sé vitað hvernig þetta eigi eftir að þróast hjá honum.

„Til­fellin hjá þessum börnum sem fæðast svona eru mis­jöfn eins og þau eru mörg. Hann er þetta mjög erfiða til­felli sem er ekki vitað hvernig fer. Tann­réttinga­læknirinn veit ekki enn þá hvernig þetta verður, hvort hann nái að draga augn­tennurnar á fram­tanna­svæðið eða hvort að það þurfi endan­lega að taka þær tennur til þess að smíða upp í hann nýjar,“ segir Ragn­heiður.

„Hann er að fara að fermast í vor og eins og staðan er núna verður hann ekki einu sinni með fram­tennur á fermingar­myndinni sinni,“ bætir hún við.

Ragnheiður vakti athylgi á stöðunni í færslu á Facebook, þar sem hún birti myndir af munni sonar síns. Hún segir þetta ferli taka gríðarlega mikið á, þá sérstaklega á son sinn.
Myndir/Ragnheiður Sölvadóttir

Má ekki stunda íþróttir

Ragn­heiður segir síðustu ár hafi verið erfið vegna síendurtekinna boðana í endurmat og þar af leiðandi ó­vissu í málinu, þá sérstaklega fyrir son hennar.

„Hann er búinn að vera hjá kjálka­skurð­lækni, lýta­lækni og tann­réttinga­lækni reglu­lega síðan hann var fimm ára gamall og þetta hamlar honum í daglegu lífi. Hann getur ekki farið að stunda fót­bolta eða körfu­bolta eins og hann langar til þar sem hann má ekki fá högg á and­litið, svo það skemmi ekki eitt­hvað sem er ný­búið að gera,“ segir Ragn­heiður.

Þá segist hún ekki skilja af hverju ferlið þurfi að vera jafn flókið og raun ber vitni þegar komi að niður­greiðslu Sjúkratrygginga Íslands fyrir börn með skarð í vör.

„Ég hrein­lega nenni ekki að tala við þau hjá SÍ lengur, ég gæti alveg eins talað við vegginn. Ég er bara komin með nóg, þetta er leiðin­legur bar­dagi sem ég hef staðið í allt of lengi og ég er þreytt,“ segir Ragn­heiður. Vegna beiðni Sjúkratrygginga Íslands um endurmat þokist ekkert í máli Guðmundar Sölva og alls óvíst hver málalok verði.

„Það eru allir í bið­stöðu núna, tann­réttinga­sér­fræðingur, kjálka­skurð­læknir, lýta­læknir, vegna þess að við vitum ekki hvort við fáum að halda á­fram með niður­greiðslu eða hvort við séum að fara að detta í það að borga fullar greiðslur. Þá segi ég bara bless bless Ís­land, ég læt ekki gera barninu mínu þetta. Hjartað mitt er brotið. Ég vil að barninu mínu líði vel og hann á ekki að þurfa að ganga í gegnum þetta, þetta endalausa ströggl í kerfinu,“ segir Ragn­heiður.