Fjöl­miðla­maðurinn Sölvi Tryggva­son þver­tekur fyrir slúður­sögur sem nú ganga um að hann hafi keypt sér kyn­lífs­þjónustu og gengið í skrokk á vændis­konu en síðast­liðna daga hefur málið verið víða á sam­fé­lags­miðlum og gerði einn fjöl­miðill til að mynda úr því frétt, þó að Sölvi hafi ekki verið nafn­greindur þar.

Sam­kvæmt fréttinni átti um­rætt at­vik sér stað fyrir tveimur vikum þar sem „þjóð­þekktur“ ein­stak­lingur kom við sögu en sögur gengu manna á milli að Sölvi hafi verið þar að verki. Um­ræddur maður átti síðan að hafa verið hand­tekinn og færður í varð­hald. Sölvi svarar á­sökununum á Insta­gram síðu sinni þar sem hann segir að málið sé „þvættingur frá upp­hafi til enda.“

„Síðustu daga hafa gengið ó­trú­lega rætnar slúður­sögur um mig í þjóð­fé­laginu sem eiga sér enga stoð í raun­veru­leikanum,“ skrifar Sölvi í Insta­gram færslu sinni þar sem hann birtir einnig mynd úr mála­skrá lög­reglu þar sem fram kemur að Sölvi hafi ekki verið skráður í neinum málum frá 1. apríl síðast­liðnum.

Sölvi tjáði sig um sögusagnirnar á Instagram síðu sinni.
Skjáskot/Instagram

Óskar engum að lenda í hakkavél slúðursagnanna

Saga Ýrr Jóns­dóttir hæsta­réttar­lög­maður ráð­lagði Sölva að birta mála­skránna þar sem með því væri auð­veld­lega hægt að af­sanna á­sakanirnar en hún kallaði eftir mála­skránni í gær. „Eins og þarna kemur skýrt fram hefur lög­reglan ekki haft nein af­skipti af mér, bein eða ó­bein, á þeim tíma sem þessi at­vik eiga að hafa átt sér stað. Þetta verður ekki skýrara. Það er ekkert til í þessum slúður­sögum.“

Að sögn Sölva hefur málið haft gífur­leg á­hrif á hann og fjöl­skyldu sína en fjöl­miðlar hafa í­trekað reynt að hafa sam­band við hann yfir helgina til þess að spyrja hvort sögurnar séu sannar. Hann segist hafa verið lamaður síðustu daga vegna málsins og neitað að trúa því að fólk væri að dreifa slúður­sögum um sig.

„Ég óska engum að lenda í þeirri hakka­vél sem slúður­sögur eru. Þær eru mann­skemmandi, niður­brjótandi og hafa valdið mér og mínum meira hugar­angri en ég hefði getað í­myndað mér. Ég verð alltaf jafn undrandi á að fólk sé til í að tala illa um náungann; fólk af holdi og blóði með til­finningar og fjöl­skyldu. Hættum þessu!“ segir Sölvi að lokum.