Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur greint frá því að Bretland verði eina þjóðin meðal stærstu efnahagskerfa heims til að upplifa samdrátt á þessu ári. Að sögn sjóðsins mun breski efnahagurinn dragast saman um 0,6 prósent og mun ástandið halda áfram að hafa áhrif á heimili landsins.
Í stuttu máli þýðir samdrátturinn að fyrirtækin þar í landi muni græða minni peninga og atvinnuleysi haldi áfram að aukast. Tölurnar í ár eru mjög ólíkar frá því í fyrra þegar breski efnahagurinn óx um 4,3 prósent. Talsmenn AGS benda á að þessi breyting endurspegli hve mikið Bretar eru háðir jarðgasi sem hefur gríðarleg áhrif á framfærslukostnað.
Kenny Mackay, skoskur sagnfræðingur og leiðsögumaður, segist borga töluvert meira fyrir mat, orku og aðrar nauðsynjavörur en hann gerði á sama tíma í fyrra. Hann er búsettur í Edinborg og er einn þeirra Breta sem finna mikið fyrir afleiðingum Brexit og stríðsins í Úkraínu.
„Ástandið er mjög slæmt. Ég borga 62 prósentum meira í orkukostnað en ég gerði á sama tíma í fyrra. Verð á matvælum hefur líka hækkað upp úr öllu valdi og ég myndi áætla að ég sé að eyða svona 35 til 40 prósentum meira í mat og aðrar nauðsynjavörur.“
Breska ríkisstjórnin hefur reynt að koma til móts við hækkandi orkukostnað. Til að mynda fengu 27 milljónir heimila í landinu rúmlega 70 þúsund króna orkustyrk sem dreift var milli október 2022 og mars 2023. Kenny segist hafi notið góðs af þeim styrk en óljóst er hvað gerist þegar hann rennur út í apríl.
Hann telur sig samt heppnari en marga samlandar sína. „Þar sem ég er fullorðinn launþegi og bý einn er ég ekki á eins slæmum stað og þeir sem eru atvinnulausir eða með börn. Ég bý líka í lítilli íbúð sem er frekar nýleg, þannig að það lækkar kostnaðinn töluvert,“ segir hann.
Kenny segist mun meðvitaðri um það hvað hann kaupir. Hann hefur til dæmis sparað peninga með því að elda matinn sinn frá grunni í stað þess að kaupa tilbúna rétti og sækir sjaldnar bari eða viðburði.
„Ef ég vil til dæmis heimsækja Ísland aftur þá þyrfti ég að taka það af sparnaðinum mínum,“ segir Kenny.