Um­deildi sjón­varps­maðurinn Tucker Carl­son, sem stýrir eigin þætti á banda­rísku sjón­varps­stöðinni Fox News, viður­kennir að hann ljúgi. En bara þegar hann er búinn að mála sig út í horn.

Tucker ræddi málin í Youtu­be þætti Dave Ru­bin. Þar kallaði hann kollega sína á sjón­varps­stöðinni CNN, líkt og Brian Stelter, Chris Cu­omo og Don Lemon „trúða­fólk.“ Sjálfur var hann eitt sinn að vinna þar en segist ekki hrifinn.

Tucker hefur í­trekað borið blak af efa­semdar­mönnum um bólu­efni í þætti sínum á Fox News og er þekktur fyrir fim­leika­æfingar með stað­reyndir í þætti sínum þar. Í Youtu­be þættinum, sem horfa má á hér að neðan, segist hann ljúga.

„Ég meina, ég lýg ef ég er kominn út í horn eða eitt­hvað. Ég lýg. Ég reyni virki­lega að gera það ekki. Ég reyni að ljúga aldrei í sjón­varpinu. Mér líkar bara ekki, mér líkar ekki að ljúga. Ég geri það auð­vitað, þú veist vegna veik­leika eða eitt­hvað,“ segir hann á ein­lægu nótunum.

Carl­son vill hins­vegar meina að það sem að­greini hann frá kollegum sínum á CNN, sé að þeir ljúgi á kerfis­bundinn hátt. „En að ljúga á kerfis­bundinn hátt án þes að spyrja þig að því hvers vegna þú sért að gera þetta?“

Í frétt Guar­dian er þess getið að banda­ríski ó­næmis­fræðingurinn Eric Feigl-Ding og stjórnar­með­limur í sam­tökum banda­rískra vísinda­manna, hafi áður sagt að Carl­son valdi miklum skaða með mál­flutningi sínum um bólu­efni.