Formaður svæðisstjórnar Landsbjargar á Austurlandi kveðst hugsi yfir þyrluheimsókn dómsmálaráðherra í lok september. Landhelgisgæslan segist sinna skyldu sinni og tekur ekki saman kostnað við ferðina.

„Menn hefðu kannski verið til í að fara heim til sín eftir átökin frekar en að þurfa að fylgja einhverri sendinefnd,“ segir Sveinn Halldór Oddsson Zoëga, formaður svæðisstjórnar Landsbjargar á Austurlandi, sem kveðst hugsi yfir þyrluheimsókn Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra eftir óveður á Austurlandi í lok september. Hann segir stóra málið hins vegar holur í almannavarnakerfinu sem tryggi björgunarsveitum ekki nægilegt fjármagn.


Austurfrétt greindi í fyrradag frá því að heimsókn ráðherra hefði farið misvel í heimamenn á Reyðarfirði en aðstoðarmaður hans dró þann fréttaflutning í efa í gær. Sjálfur kvaðst ráðherra hafa viljað sjá eyðilegginguna eftir óveðrið fyrir austan með eigin augum.

„Væri ekki nær að hæstvirtur ráðherra girti sig í brók og notaði krafta sína og fjármuni ríkisins frekar í að bæta sjálfboðaliðafélögum og einstaklingum í björgunaraðgerðum tjón sem ekki er hægt að tryggja sig fyrir?“ spyr Sveinn á samfélagsmiðlum vegna frétta af þyrluflugi Jóns.


Hann segist hugsi og argur yfir gloppum í almannavarnakerfinu sem bregðist sjálfboðaliðum á ögurstundu. „Ferðin er kannski ekkert stórmál,“ segir Sveinn um þyrluferð ráðherra. „Ég er meira pirraður á almannavarnakerfinu sem getur ekki bætt björgunarsveitum upp tjón eins og Vopnfirðingarnir hafa lent í núna,“ útskýrir Sveinn.


Þar vísar hann til frétta af skemmdum á bílum björgunarsveitarinnar Vopna í óveðrinu í lok september. „Það ber lítið á því að almannavarnakerfið komi til hjálpar og ekki er hægt að tryggja þessa bíla,“ segir Sveinn.


„Það er svona hola í kerfinu hjá okkur. Svona björgunarsveit þarf til dæmis núna bara að fara aftur í fjáröflun vegna bílanna sinna. Búnir að vinna fyrir þessu áður og geta svo ekki tryggt sig. Það er eitthvað aðeins að hjá okkur,“ segir Sveinn.


„Þyrluferð til eða frá er kannski ekki aðalmálið. En ég veit að menn hefðu kannski verið til í að fara heim til sín eftir átökin frekar en að þurfa að fylgja einhverri sendinefnd eftir um bæinn sama dag,“ segir Sveinn.

„En það er svo sem alveg jákvætt líka að menn kynni sér málin og sýni þessu áhuga en menn geta verið missáttir við framkvæmdina á því og tímasetningar, þó að það sé ekki stóra málið.“


Í svari sínu við fyrirspurn um kostnað vegna þyrluflugs ráðherra segir Landhelgisgæslan að kostnaður við þyrlusveitina sé metinn á ársgrundvelli en ekki eftir einstaka verkefnum.


Vegna ofsaveðursins sem gekk yfir austanvert landið í lok september hafi verið flogið með fulltrúa almannavarna, Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra og aðstoðarmann hans austur á firði þann 26. september til að skoða aðstæður í kjölfar óveðursins.


Þá segir Gæslan í svari sínu að aðstoð við almannavarnir sé eitt af lögbundnum hlutverkum Gæslunnar. Þannig hafi hún í gegnum tíðina flutt fulltrúa stjórnvalda, almannavarna, björgunarsveita og annarra viðbragðsaðila á vettvang náttúruhamfara.


Segir í svarinu að þennan dag hafi tvær björgunarþyrlur og tvær þyrluáhafnir verið til taks. Önnur þyrlan var til taks í Reykjavík og hin á Egilsstöðum þann tíma sem áhöfnin beið á meðan fulltrúar almannavarna, Landsbjargar og stjórnvalda kynntu sér aðstæður á hamfarasvæðinu. Þá segir Gæslan að hvert og eitt verkefni sé metið hverju sinni og umrætt verkefni hafi fallið undir eitt af lögbundnum verkum gæslunnar.