Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður og formaður Miðflokksins, segir skorta pólitíska forystu í samgöngumálum hér á landi. Málaflokkurinn hafi verið viðvarandi óvissa ár eftir ár.
„Og hætti ég að telja þegar samgönguráðherra sem nú er innviðaráðherra hafi skipt um skoðun sex sinnum um veggjöld.“
Þetta kom fram í stefnuræðu Sigmundar Davíðs á flokksráðsfundi á Egilsstöðum í dag, en þar fór hann meðal annars yfir þau málefni sem hafa verið efst á baugi í stjórnmálum undanfarnar vikur og mánuði.
Þegar kemur að málefnum hælisleitenda sagði Sigmundur Davíð þingmenn flokksins hafa fengið bágt fyrir, og jafnvel ásakanir um fordóma, vegna viðvarana þeirra við núverandi fyrirkomulagi.
„Það hefur svo komið á daginn að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa nánast farið að endurflytja ræður Miðflokksmanna frá liðnum árum um það að ástandið sé orðið stjórnlaust og það sé afleiðing af stefnu stjórnvalda,“ sagði Sigmundur Davíð. Þá hafi þingflokkur Miðflokksins varað við því að samþykkja þriðja orkupakkann, en nú sé farið að gæta afleiðinga af honum og þá sérstaklega erlendis.
„Nú gera menn ráð fyrir því að brjóta upp orkumarkaðinn og mun það óhjákvæmilega þýða að þriðji orkupakkinn komi inn í dæmið og að ríkið verði ekki lengur í stöðu til þess að bjóða upp á orku á eins hagkvæmu verði eins og við Íslendingar höfum notið og hefur nýst til orkuuppbyggingar hér á landi,“ sagði Sigmundur Davíð.
Þá vék Sigmundur Davíð að heilbrigðismálum og málefnum Landspítalans í ræðu sinni.
„Neyðarástand á Landspítalanum hefur verið síðustu ár, aukið hefur verið ítrekað við fjármagnið en ástandið leysist ekki. Þrátt fyrir að stjórnvöld viðhaldi þeirri stefnu að þjappa saman heilbrigðiskerfi landsins við Hringbraut, þar sem allt á að vera, og vanrækja um leið heilbrigðisþjónustu landið um kring,“ sagði Sigmundur Davíð.
„Vöxtur báknsins heldur áfram. Ekki bara regluverkið, heldur líka umfang ríkissjóðs og þar af leiðandi þörfin fyrir að skattleggja allan almenning. Ríkið hefur aldrei verið eins umsvifamikið,“ sagði Sigmundur Davíð, sem telur samfélagið þurfa meiri pólitík.
„Við erum tilbúin að rökstyðja það sem við höfum trú á fremur en að reyna að komast í gegnum hvern dag án þess að gera neitt sem gæti orðið umdeilt,“ sagði Sigmundur Davíð.