Ólafur Ísleifsson, fyrrverandi þingmaður Flokk fólksins, segir að sú ákvörðun stjórnar Flokks fólksins um að reka sig og Karl Gauta Hjaltason úr flokknum komi sér á óvart. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ólafi.

Þá segist hann vilja vekja athygli á því að engin ummæli hafi verið rakin til sín sem hægt sé að túlka sem siðferðislega ámælisverð eða neikvæð í garð nokkurs manns.

Líkt og kunnugt var voru hann og Karl Gauti reknir úr flokknum í gær eftir að fréttir bárust af samdrykkju þeirra með þingmönnum Miðflokksins á Klaustur bar í síðustu viku. Karl Gauti hefur neitað því að hafa látið ljót orð falla um Eygló Harðardóttur, fyrrverandi félagsmálaráðherra og ætla þeir sér báðir að sitja áfram sem óháðir þingmenn.

Sjá einnig: „Þessi orð voru ekki mín“

„Ég yfirgaf þetta samkvæmi þegar ég sá að í óefni stefndi. Þetta hefði ég átt að sjá fyrr og fara fyrr. Kemur spánskt fyrir sjónir að nærvera mín, en um leið hjáseta í hnífaköstum þessa orðljóta samkvæmis, þyki gild ástæða til brottreksturs úr stjórnmálaflokki,“ segir Ólafur í tilkynningunni.

Þá segir hann jafnframt að með þessari stjórnarákvörðun séu ný viðmið sett í Flokki fólksins. „Vonandi er að þeir sem eftir eru standist þær siðferðiskröfur sem til þeirra hljóta héðan í frá að vera gerðar. Ég óttast að ákvörðun stjórnarinnar muni eftir á að hyggja þykja illa ígrunduð.“

Hann segist með þátttöku sinni í samsætinu hafa gert mistök og biðst afsökunar á þeim. „Ákvörðunin um brottrekstur er hins vegar stjórnarinnar og mér er til efs að þar hafi framtíðarhagsmunir flokksins verið hafðir að leiðarljósi. Á þeirri ákvörðun ber ég enga ábyrgð en stjórnin alla.“