Formaður Sjálfstæðisfélagsins í Kópavogi, Unnur Berglind Friðriksdóttir, segir síðustu daga hafa verið erfiða og gagnrýnir vinnubrögð af hálfu starfsfólks eins frambjóðanda til formanns flokksins og starfsfólks Valhallar. Það gerir hún í færslu á Facebook-síðu sinni en miðað við það að hún segist styðja Guðlaug Þór má ætla að gagnrýni hennar beinist að stuðningsfólki Bjarna Benediktssonar, en hún nefnir hann þó aldrei á nafn.
Unnur Berglind segir að starfsfólk þessa frambjóðanda og Valhallar virðist henni sem strengjabrúður frambjóðandans og að hún hafi fengið „hótunarsímtöl“ frá mönnum, þar af einum sem hún segir haf farið langt út fyrir sitt umboð.
„Ég var boðuð í yfirheyrslur í bakherbergi í Valhöll í fyrrakvöld fyrir nefnd sem ágætur (eða ekki) þekktur lögmaður er í forsvari. Þar var talað niður til mín og ég lítilsvirt. Það var farið með mig eins og sakamenn í sakamáli þá er ég að vísa einnig í ítrekuð yfirheyrslusímtöl. Sakarefnið er ekki alveg á hreinu því það er ekki verið að saka mig beint um neitt,“ segir Unnur Berglind í færslu á Facebook-síðu sinni.
Allir fengu sæti sem skiluðu á réttum tíma
Hún segir að hún hafi, sem formaður skilað inn listum fulltrúa sem ætli sér á landsfundinn og að allir sem óskuðu eftir sæti, innan tímamarka, hafi fengið sæti.
„En samt á ég að hafa gert eitthvað af mér ....en samt ekki.... og farið með mig eins og sakamann af því að stuðningsmenn annars frambjóðandans eru að fara af taugum yfir því að nú hefur Guðlaugur Þór ákveðið að bjóða sig fram. Erum við ekki flokkur lýðræðisins ? Er þetta Rússland á tímum kalda stríðsins? Hótanir eins og að framboð Guðlaugs Þór kljúfi flokkinn, valdi stjórnarslitum og allt fari í kaldan kol,“ spyr Berglind í færslunni og gagnrýnir það sem hún kallar „árás á grasrót flokksins“.
„Því verð ég að segja að þrátt fyrir að hafa verið búin að einsetja mér að taka ekki opinbera afstöðu þá gerði ég það hér með. Ég get ekki annað – það sem ég hef upplifað síðustu daga er svo miklu verra en kosningaslagur á milli aðila,“ segir Unnur Berglind og að hún ætli sér að kjósa Guðlaug.
Færslan er hér að neðan.