Bankasýslan hefur legið undir harðri gagnrýni eftir útboð á 22,5 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka í síðasta mánuði. Í umræðum á Alþingi í gær vék Sigurður Ingi Jóhannsson innviða­ráðherra orðum að þætti Bankasýslunnar í söluferlinu. Þar sagðist Sigurður ekki bera traust til Bankasýslunnar eftir það sem á undan væri gengið. Hann sagðist treysta Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra en honum fyndist sérfræðingarnar hafa brugðist. Þess vegna hafi verið ákveðið að stöðva öll áform um frekari sölu í Íslandsbanka.

Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslunnar, er undrandi á orðum formanns Framsóknarflokksins. Hann hafi ekki orðið var við neina gagnrýni frá ríkisstjórninni varðandi framkvæmdina sem slíka. „Við höfum einfaldlega svarað því sem að okkur snýr og ég er enn sannfærður um að framkvæmdin hafi verið í samræmi við það sem kynnt var í upphafi.“

Lárus segir Bankasýsluna hafa viðurkennt að kynning á útboðinu hafi ekki tekist sem skyldi gagnvart almenningi. Að öðru leyti óttist hann ekki boðaðar úttektir Ríkisendurskoðunar og Fjármálaeftirlits. „Ég raunar fagna því að allir angar þessa máls verði skoðaðir ofan í kjölinn. Sérstaklega sá þáttur sem snýr að söluaðilunum. Þar komu fram atriði sem komu okkur í Bankasýslunni á óvart,“ segir Lárus og ítrekar að þá þætti þurfi að skoða vel.

Að mati Lárusar gætu viðbrögð ráðamanna borið þess merki að verið sé að bregðast við óánægjunni í samfélaginu. „Hún birtist í þessum könnunum og viðbrögðin einkennast af því að það eigi að beina þeirri óánægju yfir á okkur. En það er ekki okkar hlutverk að standa í pólitískum skylmingum.“

Um framhaldið segist Lárus ekki vita hvað verður. Bankasýslan fari enn með eignir ríkisins að andvirði 400 milljarða króna. „Ég óttast að frekari sala ríkiseigna muni frestast. Það er, að mínu mati, sorglegt því það bitnar fyrst og fremst á fjármálum ríkisins, skuldastöðu þjóðarbúsins og getu til að standa að nauðsynlegri innviðauppbyggingu á vegum hins opinbera.“

Lárus segist þó vera orðinn nokkuð vanur því að áformum um sölu ríkiseigna sé slegið á frest vegna átaka í stjórnmálum.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra