Guðlaugur Þór Þórðarson sagði á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að hann teldi fyrirkomulag skipana sendiherra þar sem einstaklingar eru „de facto“ skipuð ævilangt væri óskynsamlegt. Hann sagði að kerfið væri ósveigjanlegt og að á þingmálaskrá hans væri frumvarp um þessu mál. Hann fjallaði um ýmsar breytingar sem hann vildi sjá á kerfinu eins og að, til dæmis, sendiherrar sem skipaðir hafa verið mæti fyrir utanríkismálanefnd að lokinni skipun og færi rök fyrir ráðningu.  

Hann tók fram í máli sínu að á meðan hann hefur sinnt embætti utanríkisráðherra hafa engir nýir sendiherrar verið skipaðir, heldur hefur þeim fækkað úr 40 í 37.

Helga Vala, formaður nefndarinnar spurði Guðlaug hvort hann kannaðist við að hafa síðla hausts síðasta árs setið á fundi með Bjarna Benediktssyni og Gunnari Braga. Hann játaði því og spurður hvað hafi átti sér stað vísaði hann í svör Bjarna sem áður hafi svarað spurningum nefndarinnar.

Hann sagði að honum hafi ekki liðið á fundinum eins og hann sætti þrýstingi varðandi það að skipa Gunnar Braga. Spurður hvaðan þessi saga Gunnars Braga komi sagði hann að hann hafi ekki rætt við hann eða Sigmund frá því að Klaustursupptökurnar komu fram og hann geti ekki lagt neitt út frá því sem þar var sagt.

Yrði stór bók ef hann ætti að skrá öll samtöl

Meðlimir nefndar tóku síðan við og spurðu Guðlaug ýmissa spurninga. Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, tók fyrstu til máls. Hann las upp samtal úr Klaustursupptökunum þar sem vísað er til samtals Guðlaugs og Bjarna þar sem greint er frá því að Bjarni skipi Guðlaugu að „leysa mál Gunnars Braga“.

Guðlaugur brást við því með því að ítreka fyrri orð sín og Bjarna um að engar ákvarðanir hafi verið teknar á fundi þeirra.

„Ég hef lýst því yfir að það hafa engar ákvarðanir verið teknar. Varðandi samskipti mín við Bjarna. Þá man ég ekki eftir þessu eða að hann hafi nokkurn tíma skipað mér að gera nokkurn hlut,“ sagði Guðlaugur á fundinum.

Jón Þór spurði síðan Guðlaug hvort hann skráði samtöl sín sem hann ætti við fólk um skipanir í stöður sendiherra eða aðrar stöður í utanríkisþjónustu. Guðlaugur sagði að ef hann ætti að skrá niður öll slík samtöl þá „yrði bókin nokkuð stór“. Hann sagði að ef hefði staðið til að hann myndi skipa sendiherra hefði það ekki verið óeðlilegt að skrá niður samtöl. En það stæði ekki til, þeim hefði verið fækkað.

Að því loknu vísaði hann spurningunni aftur til nefndarinnar og sagði að ef hann ætti að skrá öll samtöl þyrfti hann á að halda leiðbeiningum og bað nefndina að ræða fyrirkomulagið.

Best að vera ekki að finna upp hjólið

Að því loknu tók við Jón Steindór Valdimarsson þingmaður Viðreisnar fjallaði um skipanir í stöður og spurði hvort ekki væri heppilegra að auglýsa þannig allir hafi jafnan aðgang að því að lýsa yfir áhuga á stöðunum, sama hvort um ræðir fólk úr atvinnulífi eða stjórnmálum. Þannig komi ávallt hæfasta fólkið til álita.

Guðlaug Þór sagði að honum vitanlega hafi engin sú þjóð þann hátt að auglýsa slíkar stöður. Hann sagði svo að honum finnist stærra mál að það sé meiri sveigjanleiki í kerfinu og skýr framgangsmáti fyrir það fólk sem innan þess starfar.

Guðlaugur sagði að hann teldi ekki að það væri skynsamlegt að kerfið væri eins „niður njörvað“ og það er núna. Það sé í raun æviráðning þegar fólk sé skipað. Hann sagði það þó flókið mál að breyta lögum því það tengist öðrum lögum en tók fram að verið væri að vinna í málinu.

Guðlaugur sagði að lokum í svörum sínum til Jóns að drög að breytingum væri ekki komin og sagði að þau þyrfti að hugsa í heildarsamhengi og það væri best fyrir Íslendinga að vera ekki að finna upp hjólið í þessum málum. Hann sagði að sín nálgun væri að læra af því sem vel hefur gengið annars staðar og af því sem hefur mistekist.

Mikilvægt að fólk hafi aðgang að stjórnmálamönnum

Síðan tók Líneik Anna Sævarsdóttir þingkona Framsóknarflokksins til máls. Hún spurði út í hlutfall sendiherra sem eru utanaðkomandi og úr stjórnmálum, kynjahlutföll og hvort áform væru um að jafna þau.

Guðlaugur sagði henni að nú væru starfandi 37 sendiherrar og að einn þeirra væri í leyfi. Fjórir væru ráðnir utan stjórnarráðsins og af þeim 33 sem eftir eru séu sumir sem ekki komi úr utanríkisráðuneytinu. Af þeim 37 sem eru starfandi eru 25 karlmenn og 12 konur.

Guðlaugur sagði að það væri erfitt að gera áform um breytingar því hann vissi ekki hversu lengi hann yrði í starfi en að málið sé á þingmálaskrá hans og að hann vilji gera breytingar.

Að lokum tók Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, til máls. Hann sagði að honum litist vel á hugmyndir ráðherra um að halda þingi upplýstu um slíkar skipanir. Að lokum spurði hann hvort það væri eðlilegt að menn bönkuðu upp á til að spyrja um slíkar stöður, og vísaði líklega þar til fundar Gunnars Braga með þeim Guðlaugu og Bjarna.

Guðlaugur sagði að hann teldi sig ekki vera eina utanríkisráðherrann sem hafi sætt „þessi mál við fólk. Menn hafa miklar skoðanir á þessu og við fáum margar ábendingar.“

Hann sagði að lokum að hann teldi það mikilvægt að fólk hafi aðgang að stjórnmálamönnum, sama hvort það væru þingmenn eða ráðherrar.

Að loknum spurningum og svörum Guðlaugs var fundi nefndarinnar slitið klukkan 11.28. Hægt er að horfa á upptöku af fundinum hér.

Gunnar Bragi og Sigmundur mættu ekki

Boðað var til fundarins eftir Klaustursupptökurnar en þar heyrist Gunnar Bragi fullyrða að honum hafi verið lofuð staða sendiherra. Gunnar Bragi og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson voru báðir boðaðir á fundinn – en mættu hvorugir. Þeir sendu hins vegar frá sér yfirlýsingar, sem lesa má um hér.

Sjá einnig: Mæta ekki á fund sem boðað er til „í annar­legum til­gangi“

Bjarni Benediktsson sat fyrst fyrir svörum. Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra segist kannast við að hafa heyrt Gunnar Braga Sveinsson, þingmann Miðflokksins, lýsa yfir áhuga á starfi í utanríkisþjónustu, en veit þó ekki til þess að Gunnar Bragi hafi fengið loforð um slík störf. 

Bjarni sagði á fundinum að stjórnmálamenn og ráðherrar þekki það að menn óski eftir að ræða við þá um skipanir eða áhuga á slíkum störfum og að hann telji það  „dónaskap“ að verða ekki við beiðnum manna um að mæta á fundi sem þessa. Þetta kom fram í máli Bjarna á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun þar sem fjallað er um sendiherrakapalinn svokallaða.

Sjá einnig: Dóna­skapur að verða ekki við beiðnum þing­manna um fund

Fundurinn var í beinni. Hægt er að horfa á upptöku af fundinum hér.