Theresa May, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins, er ekki af baki dottin. Þingið hefur tvífellt samninga sem ríkisstjórn hennar hefur náð við Evrópusambandið um útgöngu Breta. May segir í dag að hún hafi ekki nægan stuðning í þinginu til að samningur hennar verði samþykktur, „eins og sakir standa“.

May reynir nú að afla samningi sínum stuðnings áður en hann verður lagður fyrir þingið í þriðja sinn. Hún mun að sögn BBC leggja þær línur fyrir flokksmenn sína á þingi, að þeir hafni fyrirliggjandi beiðni, undir foyrstu Sir Oliver Letwin. Hann vill að kosið verði um aðra kosti en samninginn sem May hefur aflað.

Það hugnast May illa en Oliver Letwin situr á þingi fyrir Íhaldsflokkinn. „Sú atkvæðagreiðsla myndi leiða til niðurstöðu sem ekki er hægt að semja um við Evrópusambandið,“ sagði hún við þingheim. Glapræði væri fyrir ríkisstjórnina að heimila atkvæðagreiðslu sem engin leið er að vita hvað kæmi út úr. Eina lausnin önnur en sú að samþykkja samninginn, væri að fara úr Evrópusambandinu án samnings.