Þóra Einarsdóttir, óperusöngkona segir sýknudóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli hennar gegn Íslensku óperunni vera óskiljanlegan og ekki taka á meintum samningsbrotum óperunnar. Af dómnum megi ráða að óperusöngvarar séu ekki að störfum nema þeir standi á sviðinu, en allur undirbúningur þeirra utan þess sé á þeirra kostnað.

Þetta standist enga skoðun, enda úr takti við launakjör allra annarra sviðslistamanna, svo sem leikara og dansara sem fái einfaldlega borgað fyrir að mæta í vinnuna.

Þetta kemur fram í hispurslausu viðtali Sigmundar Ernis við Þóru í fréttaþættinum 21 á Hringbraut í kvöld þar sem hún fer yfir aðdraganda þess að hún kærði stjórnendur íslensku óperunnar fyrir að hafa farið út yfir öll mörk vinnuálags við uppsetningu á Brúðkaupi Fígarós haustið 2019.

Sýknudómurinn hafi fyllt mælinn eftir langvarandi óánægju klassískt menntaðra óperusöngvara með kjör sín hjá óperunni, en eftir hann lýstu þeir yfir vantrausti á stjórn Íslensku óperunnar, enda hafi það endurtekið sýnt sig að óperustjóri og stjórn óperunnar beri ekki hag óperusöngvara fyrir brjósti og bjóði þeim upp á gerviverktöku í besta falli.

Þóra segir að líklega hefði hún átt að ganga út af miðri æfingu uppfærslunnar á Brúðkaupi fígarós, það sé í anda sýknudómsins – og eins vegna þeirra ítrekuðu aðdróttana stjórnenda óperunnar að ef til vill væri Þóra orðin of gömul fyrir hlutverk sitt og þeir hefðu betur fundið yngri söngvara í rulluna, en hvaða listamaður með sæmilega sómakennd rýkur á dyr með salinn fullan af hljóðfæraleikurum og söngvurum. Hún kveðst enn ekki hafa ákveðið hvort hún áfrýi sýknudómnum, en hitt sé nokkuð ljóst að hún eigi ekki afturkvæmt í Óperuna með núverandi stjórnendur við völd.