Almannavarnir og lögreglustjórinn á Suðurlandi hafa ákveðið að virkja SMS-skilaboð sem verða send til fólks sem fer inn á fyrirfram skilgreint svæði umhverfis Heklu, en nú er þétt innstreymi í kvikugeyminn undir fjallinu sem getur byrjað að gjósa með litlum sem engum fyrirvara.

Lögreglustjórinn á Suðurlandi varar fólk við því að fara í göngu á Heklu – og undir þau varnaðarorð taka vísindamenn sem þekkja dynti fjallsins.

„Ég myndi aldrei fara með hóp á Heklu sem ábyrgur leiðsögumaður,“ segir Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur á Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, en hann segir Heklu vera óútreiknanlega. „Ég myndi finna mér önnur fjöll til að ganga á.“

Hann segir Heklu sérstaka fyrir þær sakir hversu stuttur fyrirvari er á eldgosum í fjallinu. „Það þurfa ekki nema fimmtán mínútur að líða á milli fyrstu vísbendingar um að gos sé að hefjast og að jörðin opnast,“ segir hann og minnir á að ganga á Heklu, fram og til baka, taki um fimm klukkutíma. „Og það vill enginn standa á toppi Heklu í ham og eiga alla niðurleiðina eftir,“ bætir hann við.

Freysteinn segir Heklugos oftast byrja með gossprungu uppi á háfjallinu – og gosbyrjunin sé hættulegust, „en svo leitar virknin neðar með tímanum og kraftur gossins minnkar,“ segir hann.

Mislangt hefur verið á milli síðustu gosa í Heklu, en hún spjó eldi síðast 2000, þar áður 1991, á árunum 1980 og 1981, 1970, 1947 og 1845.