Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins, segir velferðarmálin, frekar en borgarlínu og samgöngusáttmála skipta flokkinn máli í mögulegu meirihlutasamstarfi.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, sagði í gær Flokk fólksins auk Sjálfstæðisflokksins hafa verið óskýran í afstöðu sinni gagnvart samgöngusáttmálanum og borgarlínu. Því hafi flokkurinn ákveðið að skora á Framsóknarmenn að koma til formlegra meirihlutaviðræðna við bandalag flokksins með Samfylkingu og Pírötum, án hinna flokkanna tveggja.
Varð að segja nei
„Hún túlkar hlutina kannski svolítið eftir hentugleika, ég ætla ekki að svara henni, það er ekki til neins,“ segir Kolbrún, aðspurð að því hvort að flokkurinn hafi verið óskýr í afstöðu sinni í samgöngumálum.
„Þegar við fengum já og nei spurningu á RÚV um borgarlínu þá hafði ég engra annarra kosta völ en að segja bara nei, því þú máttir ekki útskýra neitt. Við höfum hinsvegar hvergi og hvergi verið haft eftir mér að ég sé algjörlega á móti borgarlínu,“ segir Kolbrún um málið.
„Ég hef aldrei tjáð mig með svo afgerandi hætti. Ég er hinsvegar með allt önnur forgangsmál og sagt að það sé erfitt að sjá á eftir svona miklu fjármagni í svona stórt verkefni á meðan fólk hefur ekki þak yfir höfuðið,“ segir Kolbrún.
Hún segir borgarlínu ekki baráttumál Flokks fólksins. „Við viljum Sundabrautina absalútlí, hún er svo mikilvæg fyrir margar sakir, eins og byggð og uppbyggingu en við höfum mótmælt þessari miklu þéttingu byggðar,“ segir Kolbrún.
„Við viljum þéttingu byggðar upp að vissu marki en líka í Grafarvogi og á Kjalarnesinu.“
Hún segir flokkinn aldrei hafa tekið sömu afstöðu gagnvart borgarlínu og Miðflokkurinn. „Við erum ekki svona öfgaflokkur.“
Kolbrún segir aðspurð að Flokkur fólksins myndi ekki láta sína þátttöku í meirihluta stranda á borgarlínu, en tekur fram að hún yrði alltaf að funda með baklandi flokksins og heyra í sínu fólki.
„Á meðan ég fengi velferðarpakkann, sem er okkar aðalmál, þá erum við í Flokki fólksins ekki að fara að fókusa á þetta. Ég sé það allavega ekki fyrir mér að það myndi steyta á slíku máli ef að við fáum okkar málum framgengt.“
Opin fyrir öllu
Kolbrún segir flokkinn opinn fyrir samstarfi við mögulegan meirihluta S,P og C bandalagsins með Framsóknarflokknum, en engan hafa talað við sig.
„Ég er opin fyrir öllu svo lengi sem okkar mál fá brautargengi og ég myndi klárlega leggja slíkt samtal fyrir mitt fólk, og byrja á að tala við mína grasrót, ég er ekki ein í þessu,“ segir Kolbrún.