Donald Trump Banda­ríkja­for­seti greindi frá því í morgun að hann komi til með að til­nefna nýjan dómara við Hæsta­rétt Banda­ríkjanna fyrir lok vikunnar en sæti hefur nú losnað við réttinn þar sem Ruth Bader Gins­burg lést í síðustu viku. Að því er kemur fram í frétt CNN hefur Trump nýtt helgina til að leita ráða hjá á­lits­gjöfum um hver næstu skref ættu að vera.

Þannig virðist Trump ætla að virða hinstu ósk Gins­burg að vettugi en hún vildi að nýr dómari yrði ekki skipaður fyrr en eftir að nýr for­seti hafði verið settur í em­bætti. Í viðtali við Fox and Friends í morgun efaðist Trump þó um það að ósk Ginsburg hafi komið frá henni sjálfri og ýjaði að því að yfirlýsingin, sem barnabarn Ginsburg birti á föstudaginn, hafi verið skrifuð af Demókrötum innan þingsins.

Ljóst að Trump vilji ganga frá tilnefningunni sem fyrst

„Ég held að það verði á föstu­dag eða laugar­dag, við viljum votta virðingu okkar,“ sagði Trump í við­tali við Fox and Fri­ends en hann sagðist vilja bíða með að til­nefna nýjan dómara þar til eftir að minningar­at­höfn Gins­burg fer fram. Á­lits­gjafar for­setans höfðu ráð­lagt honum frá því að til­nefna dómara strax þar sem slíkt gæti haft á­hrif á fylgi Repúblíkana fyrir komandi for­seta­kosningar.

Það er þó ljóst að Trump vilji ganga frá til­nefningunni fyrir for­seta­kosningarnar 3. nóvember og sagði hann að verið væri að skoða fjóra eða fimm ein­stak­linga fyrir stöðuna. Hann hefur gefið það út að hann komi til með að tilnefna konu en hefur þó að­eins nefnt tvær konur á nafn; þær Amy Con­ey Bar­rett, sem er nú talin lík­legust, og Barbara Lagoa, sem Trump sagði vera lík­lega fyrir helgi en hefur nú fallið í skuggann á Bar­rett.

Börðust gegn tilnefningu Demókrata í valdatíð Obama

Einungis klukku­stund eftir að til­kynnt var um and­lát Gins­burg gaf Mitch McConnell, leið­togi Repúblikana í öldunga­deild Banda­ríkja­þings, það út að kosið yrði um nýjan dómara í þinginu fyrir for­seta­kosningarnar, óháð því hvern Trump kæmi til með að velja.

Demó­kratar hafa þó hvatt Repúblikana til að sýna stillingu og minnst á það þegar Repúblikanar stöðvuðu til­nefningu Obama um dómara árið 2016. McConnel sagði þá að „banda­ríska þjóðin ætti að fá að hafa á­hrif á val við næsta dómara við Hæsta­rétt,“ og því ætti ekki að skipa í lausa stöðu við réttinn fyrr en nýr for­seti yrði kosinn. Þá voru tíu mánuðir í kosningar.

Ef Trump skipar dómara við réttinn verður hann skipaður fimm dómurum úr röðum Repúblikana á móti þremur dómurum Demó­krata. Valið á dómara er því enn eitt bar­áttu­málið fyrir for­seta­kosningarnar en skipunin gæti haft á­hrif á ýmis mál­efni, til að mynda fóstur­eyðingar og réttindi hin­segin- og trans­fólks.