„Ég hafði ekkert og hef ekkert heyrt í þeim, hvorki í dag né í gær. Þannig það fyrsta sem ég hugsaði bara var að lög­reglan hefði farið og sótt þau á meðan at­hygli okkar hinna beindist að stjórn­völdum á að þrýsta á um að þau myndu stöðva þessa brott­vísun,“ segir Sema Erla Serdar, for­maður Solaris, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Til­efnið er til­kynning frá ríkis­lög­reglu­stjóra sem barst fjöl­miðlum í morgun um að Kehdr fjöl­skyldan væri horfin. Því hefði henni ekki verið vísað úr landi í morgun eins og til stóð.

„Það fyrsta sem kemur upp í hugann er það hversu á­takan­lega sorg­legt það er að þau hafi upp­lifað sig í þeirri stöðu að þetta væri það sem þau þyrftu að gera. Að fara á flótta á Ís­landi vegna þess að ís­lensk stjórn­völd gripu ekki inn í og komu í veg fyrir það að þessi börn væru rekin úr landi. Mér finnst það endur­spegla okkur sem sam­fé­lag svo­lítið vel,“ segir Sema.

„Þau eru á flótta frá Egypta­landi vegna of­sókna stjórn­valda þar í landi. Nú hafa þau lagt í flótta frá ís­lenskum yfir­völdum og maður getur ekki í­myndað sér ör­væntinguna og þjáninguna sem þessi fjöl­skylda, og ég tala nú ekki um börnin, eru að upp­lifa núna. Maður hefur séð þjáninguna í augum þeirra síðustu daga,“ segir Sema.

„Ég get líka alveg full­yrt það að ef við værum í sömu sporum og þau að þá myndum við líka örugg­lega gera allt sem við mögu­lega gætum gert til þess að bjarga börnunum okkar frá hremmingum, sem er það sem bíður þeirra um leið og þau verða send úr landi og til Egypta­lands.“

Að­spurð segir Sema að Solaris muni gera allt sitt til að að­stoða fjöl­skylduna.

„Já og ég vissi nú svo sem af því áður en að þetta kom í ljós að þetta mál verður á­fram rekið. Lög­fræðingur þeirra hefur lýst því yfir að hann muni fara með það fyrir dóm­stóla og það stóð alltaf til og við munum bara á­fram að­stoða með öllum þeim hætti sem mögu­legt er,“ segir Sema.

„Í rauninni er það versta sem ís­lensk yfir­völd geta gert þeim að vísa þeim úr landi. Það átti að vera í dag og það verður þá kannski bara nokkrum dögum seinna. Af­leiðingarnar verða þær sömu fyrir þau, hvort sem þau hefðu verið farin í morgun eða eftir viku. Þau geta ekki gert þeim neitt verra en þau hafa gert þeim nú þegar,“ segir Sema, að­spurð um þau viður­lög sem fjöl­skyldan geti verið beitt vegna málsins.