Snar­fari, fé­lag sport­báta­eig­enda harmar að kettir hafi látist í minka­gildrum og segist ætla að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur.

Matvælastofnun (MAST) hefur nú til skoðunar notkun minkagildra og refagildra en málið hefur skörun við hlutverk Umhverfisstofnunar sem fara með eftirlit með lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Fjallað var um málið í síðasta mánuði og rætt var við Birtu Birgis­dóttir sem missti kött sinn, Zlatan, í slíka gildru.

Snar­fari segir í yfir­lýsingu að það sé „þyngra en tárum taki, að sú ömur­lega staða hafi komið upp, að sak­lausir kettir hafi látist í minka­gildrum sem komið hafði verið fyrir á svæði fé­lagsins“ og á­rétta að gildrurnar séu ekki, og hafa aldrei verið, á þeirra vegum.

„Þegar hafnar­stjóra varð kunnugt um þær setti hann sig sam­stundis í sam­band við eig­anda þeirra og krafðist þess að þær yrðu fjar­lægðar,“ segir enn fremur.

Hefur tilkynnt til MAST

Birta segir í sam­tali við Frétta­blaðið að hún hafi enn ekki fengið Zlatan til baka og viti ekki enn hvar hann sé jarðaður. Hún að þessi yfir­lýsing fé­lagsins komi henni í raun á ó­vart. Hún hafi talið þau vita af gildrunum því þær komu þeim ekki á ó­vart og vegna þess að maðurinn sem kom þeim fyrir sat í stjórn fé­lagsins.

„Þessir menn hafa aldrei nokkurn tíma talað við mig eða svarað mér. Ég gat ekki annað en hlegið að þessari yfir­lýsingu. Þetta er svo mikið kjaft­æði,“ segir Birta og að það hafi aldrei komið neinum á ó­vart hjá Snarfara, þegar hún var að leita að Zlatan, að þessar minka­gildrur væru þarna.

Hún segir að hún velti því fyrir sér hvort hún eigi að kæra málið en hefur til­kynnt málið til MAST og bíður enn eftir svari frá þeim.

UST og MAST skoða málið

„Umhverfisstofnun hefur það hlutverk að samþykkja gerðir gildra áður en það er leyfilegt að nota þær,“ segir Þóra J Jónasdóttir, sérgreinadýralæknir hjá MAST og segir að sem dæmi eigi það við um fótbogagildrur.

Hún segir að því sé það fyrsta sem MAST geri, þegar þau fái tilkynningu um slíkar gildrur, að hafa samband við Umhverfisstofnun til að kanna hvort að þær hafi verið samþykktar.

„Ef svo er ekki þá fylgja þeir því eftir, en við förum með eftirlit með lögum með velferð dýra og samkvæmt því erum við meðal annars að skoða velferð meindýra og hvort að það sé verið að fylgja reglum um aflífun og eyðingu meindýra. Eins hvort það megi ætla að þar hafi dýr verið látið líða óþarfa kvalir og limlestingar“ segir Þóra.

Spurð hvort að gildrurnar sem voru við hafnarsvæðið hafi verið þar löglega segir Þóra að einhverjar þeirra hafi verið samþykktar en að þrátt fyrir það þurfi að fylgja ákvæðum sem taki tillit til dýravelferðar þegar kemur að aflífun eða eyðingu meindýra.

„Svona gildrur þarf að vakta mjög vel svo dýr líði ekki óþarfa kvalir og limlestingar. Í raun þarf að vitja þeirra strax ef dýr festist, því allt annað er óþarfa þjáningef dýrið hangir í gildrunni og drepst ekki strax,“ segir Þóra.

Hún segir að auk þess eigi við eyðingu meindýra að tryggja að öðrum dýrum stafi ekki hætta af.

„Málið er enn í rannsókn. Það er mikill málaþungi á stofnuninni,“ segir Þóra og að málið sé unnið í samvinnu við Umhverfisstofnun en að hver stofnun vinni eftir sínum lögum og verkferlum en að aðkoma MAST varði eftirlit með dýravelferð.