Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir vonbrigði að hlutfall einkabílsins hafi hækkað. Samkvæmt nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins hefur hlutfall íbúa á höfuðborgarsvæðinu sem ferðast með einkabíl hækkað úr 75 árið 2014 í 79 prósent árið 2018.

Samgöngumálin voru aðalmálið í síðustu sveitarstjórnarkosningum og þá sér í lagi borgarlínan. Þá hefur átakið Hjólað í vinnuna verið í gangi síðan 2008. Hjálmar segir að átakið og uppbygging hjólastíga hafi skilað sér, í dag velji um sjö prósent reiðhjól sem ferðamáta. „Þó að það komi ekki fram í þessum hlutfallstölum þá hefur verið mikil aukning í strætisvagnaferðum,“ segir Hjálmar og telur að skýringin geti falist í fækkun gangandi vegfarenda.

„Undanfarin ár hafa verið miklir efnahagslegir uppgangstímar, það er segin saga að fleiri kaupa sér bíl eða bæta við sig bíl,“ segir Hjálmar. „Þetta er sveiflukennt en það er hægt að stýra þessu.“

Markmið borgarstjórnar er að ná hlutfalli einkabílsins niður í 58 prósent árið 2030 líkt og hlutfallið er í Þrándheimi. Hjálmar segir að ellefu ár eigi að duga til þess, þá verði fyrstu leggir borgarlínunnar komnir í gagnið.