Ranglega hefur verið haldið fram að allar vistir hafi klárast um borð í vélum Icelandair sem urðu veðurtepptar á sunnudag. Þetta segir framkvæmdastjóri hjá Icelandair.

Farþegar biðu útgöngu úr vélum á Keflavíkurflugvelli í allt að tíu klukkustundir. Samkvæmt upplýsingum frá Isavia taka flugfélögin ákvörðun um hvort lent skuli á flugvelli eða ekki.

„Við upplýsum flugfélög og flugrekstrarfyrirtæki um veðurspá,“ segir Guðjón Helgason hjá Isavia. Ljóst var að hans sögn að veðrið á sunnudag yrði vont og var haldinn sérstakur fundur á laugardagskvöldið þar sem aðgerðastjórn mat aðstæður.

„En flugvöllurinn er alltaf opinn. Alþjóðaflugvellir eru alltaf opnir,“ segir Guðjón.

Ef vindhraði fer yfir 50 hnúta er landgangur ekki opnaður að vélum. Stigabílar komust hvorki lönd né strönd þar sem þeir hefðu getað nuddast út í vélarnar í rokinu. Vindur fór yfir 70 hnúta í hviðum og fauk hlaðmaður hundruð metra eftir flugbrautinni í látunum.

„Það sköpuðust þarna mjög erfiðar aðstæður,“ segir Guðjón.

Kristen Carr, farþegi í Ameríkufluginu, sat föst allan sunnudaginn. Hún vandar Icelandair ekki kveðjurnar og segir að allur matur hafi klárast um borð sem og drykkir og salernin orðið ónothæf.

Þetta segir Jens Bjarnason, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair, vera rangt. „Við höfum rætt við áhafnir og í öllum vélum voru birgðir, óáfengur vökvi til að drekka. Þar sem vatn kláraðist var til sódavatn.“

Jens segir að spár færustu sérfræðinga um veðrið hafi ekki staðist.

„Versta veðrið átti að ganga yfir klukkan níu um morguninn en detta svo niður um hádegi. Ef það hefði gengið eftir hefðum við alveg getað komið vélunum til og frá Keflavík þarna um morguninn,“ segir Jens. Eitraður kokteill hitastigs, úrkomu og vinds leiddi til þess að svo fór sem fór, að sögn Jens.

Tjón Icelandair hleypur á tugum milljóna. Spurður hvort félagið sjái fram á að greiða farþegum skaðabætur segir Jens að röskun vegna veðurs sé undanþegin neytendarétti.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir að málið veki upp áhugaverðar spurningar um hvenær farþegi sé kominn á áfangastað og hvenær ekki. „Er það þegar flugvélin lendir eða þegar farþegar stíga frá borði? Það getur haft áhrif á mögulegar bætur.“

Breki segir að læra verði af þessari reynslu.

„Hvernig munu flugfélögin bregðast við næst þegar svona veður geisar? Væri betra að beina vélunum annað? Eða leggja seinna af stað? Þetta er eitthvað sem flugfélögin hljóta að skoða.“