Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn studdu ekki mál Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis-og auðlindaráðherra í ríkisstjórn um stofnun hálendisþjóðgarðs, að sögn ráðherrans.

„Það er alveg ljóst að ég mætti andstöðu innan ríkisstjórnarflokkanna og víðar,“ sagði Guðmundur Ingi á Fréttavaktinni á Hringbraut í gærkvöldi. Frumvarp hans var lagt fyrir Alþingi í nóvember í fyrra. Eins og þekkt er fékk það ekki afgreiðslu fyrir þinglok en stofnun hálendisþjóðgarðs er að finna í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

„Niðurstaðan var sú að við verðum að gefa þessu meiri tíma.“ Hvort málið hafi ekki komið fram alltof seint miðað við umfangs þess, sagði Guðmundur Ingi það mega vera. „Þetta hafði mátt eiga meiri tíma, þar spilar inn í Covid og fleira. Ég lagði það fram í ríkisstjórn í október, þannig að þetta var bara mjög þungt mál. Ég er hins vegar sannfærður um það að við getum náð meiri sátt um þetta,“ sagði hann.

„Þetta er vissulega stórt mál fyrir Vg en líka stórt mál fyrir Ísland í heild sinni,“ sagði ráðherra og að meðbyr hafi verið með hálendisþjóðgarði í öllum flokkum þingsins. „Það skiptir ekki bara Ísland máli að koma hér fram með eitt helsta framlag okkar til náttúruverndar í heiminum,“ sagði hann. Það sé þó líka stórt efnahagslegt mál til að efla byggðirnar í landinu.

fréttablaðið/valli

Aðspurður, miðað við andstöðu stjórnarflokkanna tveggja, hvort ekki sé ljóst að eigi hálendisþjóðgarður að verða til þá þurfi öðruvísi samsetta ríkisstjórn en nú er, sagðist Guðmundur Ingi ekki vilja segja til um það.

„Við bara leggjum fram okkar stefnumál í Vg fyrir kosningar og svo á borðið eftir kosningar hvað við leggjum áherslu á í stjórnarsamstarfi ef við fáum tækifæri til þess, og hálendisþjóðgarður er eitt af því sem við munum að sjálfsögðu leggja þar á borðið,“ var svarið.

„Auðvitað vilja vinstri menn alltaf vera í vinstri stjórn,“ segir Guðmundur Ingi um hvort æskilegra sé fyrir umhverfismálin að stjórn verði mynduð til vinstri með Vg. „Þá náum við meiri árangri í þeim málum sem við leggjum á borðið og leggjum áherslu á,“ segir Guðmundur Ingi og loftslagsmálin séu þar með talin.

Á Íslandi er ein hæsta losun gróðurhúsalofttegunda í heimi, eða um 14 til 20 tonn á hvern íbúa á ári. Til að ná markmiðum Parísarsáttmálans þarf losunin að minnka niður í fjögur tonn á mann en Ísland hefur auk þess sett sér hærra markmið um kolefnishlutlaust Ísland í síðasta lagi árið 2040.

Rauð viðvörun var gefin út vegna losunar gróðurhúsalofttegunda í nýrri loftslagsskýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna.

„Þetta meðal annars orsakast af því að hér eru stór álver sem losa mikið hlutfallslega, miðað við íbúafjölda,“ segir Guðmundur Ingi.

Hann nefnir nauðsyn á meiri aðgerðum vegna losunar í landbúnaði og sjávarútvegi þótt tilraunir með umhverfisvænna eldsneyti gefi góð fyrirheit og einnig í flugsamgöngum.