Nú fer fram síðari umræða um ársreikning Reykjavíkurborgar fyrir árið 2018 á aukafundi borgarstjórnar Reykjavíkur. Endanleg afgreiðsla ársreikningsins felst í undirritun borgarstjórnar sem staðfestir að hann sé í samræmi við lög um ársreikninga og ákvæði sveitarstjórnarlaga.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs og oddviti Viðreisnar, gagnrýndi í ræðu sinni málflutning Vigdísar Hauksdóttur, oddvita Miðflkokksins, og sagði hann í „loftköstum“. Vigdís hafði þá lýst því yfir að hún gæti ekki skrifað undir reikninginn vegna túlkunarágreinings.

„Þetta er afar óábyrgt og bara til þess fallið að slá ryki í augu borgarbúa og reyna að skjótast framhjá þeirri staðreynd að ársreikningur borgarinnar er góður, hann er ábyrgur og hann er löglegur og um hann ríkir engin ágreiningur,” sagði Þórdís í ræðu sinni um yfirlýsingu Vigdísar.

Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins, var ekki sátt við orðræðu Þórdísar Lóu.

„Það er nefnilega þannig að borgarfulltrúar verða að staðfesta ársreikninginn og geta ekki skorast undan því. Telji borgarfulltrúar að annmarkar séu á reikningnum skal staðfesta hann engu að síður en gera grein fyrir þeim annmörkum í áritun,” hélt Þórdís áfram. Þá bendir hún á að slíkt eigi eingöngu við ef borgarfulltrúi telur að reikningurinn sé ekki í samræmi við gildandi reikningsskilareglur eða sé efnahagslega rangur.

Umsögn ytri endurskoðanda um ársreikninginn liggur fyrir en þar segir að hann gefi glögga mynd af afkomu Reykjavíkurborgar á árinu 2018 og sé í samræmi við lög um ársreikninga og aðrar reglur um reikningsskil sveitarfélaga.

„Ekki bulla og verum ábyrg,“ sagði Þórdís loks. „Til þess erum við kosin, ekki til að fara með fleipur, rugla og róta upp vitleysu.“

Vigdís Hauksdóttir steig næst upp í pontu og veitti Þórdísi andsvar. „Svona er nú málefnaþurrðin,“ sagði Vigdís. „Þegar málstaðurinn er slæmur þá er ráðist á fólk persónulega. Og það er gert hér reglulega í Ráðhúsinu, svo það sé sagt. Af þessum sama borgarfulltrúa var ég kölluð rugluð miðaldra kelling á þarsíðasta borgarstjórnarfundi,“ sagði Vigdís þá og sagði þessa orðræðu til votts um slæmt andrúmsloft innan borgarstjórnarinnar.

Fylgjast má með fundinum hér í beinni.