Yusuf Hacisüleyman, kjörræðismaður Íslands í Antalya, segir í samtali við Fréttablaðið að stórfelldar björgunaraðgerðir séu nú í gangi í Tyrklandi eftir jarðskjálfta sem hefur orðið að minnsta kosti 1.400 manns að bana. Hann óttast að tala látinna muni hækka enn meira í kjölfar þess að annar jarðskjálfti reið yfir sama svæðið aðeins með nokkurra klukkutíma millibili.
„Það sem við sjáum í sjónvarpinu er að fleiri en 1.000 manns hafa látist og 6.000 eru slasaðir. Svo kom annar jarðskjálfti sem svipaður var að stærð, þannig það lítur út fyrir að það tala látinna á svæðinu muni hækka.“
Yusuf segir að Antalya, sem er 2,5 milljón manna borg, sé ein þeim borgum sem er að taka þátt í björgunaraðgerðum og er að undirbúa vöruflutninga inn á svæðið.
„Við erum núna að undirbúa trukka til að ferja teppi og aðrar nauðsynjavörur inn á svæðið. Því miður eru veðurskilyrðin mjög slæm þar sem það er búið að snjóa mjög mikið á svæðinu og það gæti hindrað flutningana,“ segir Yusuf.