Gallar eru sagðir á vottunarkerfum í tengslum við kolefnisjöfnun hérlendis. Fyrrverandi forstjóri Náttúrufræðistofnunar, Jón Gunnar Ottósson, segir reglurnar heimatilbúnar fyrir Ísland. Skógrækt ríkisins vísar gagnrýninni á bug.

Jón Gunnar segir að einn ágallinn varði kolefnisjöfnun með gróðursetningu trjáa.

„Hér í skógræktinni er öllu sleppt er varðar vernd líffræðilegrar fjölbreytni og framandi ágengar tegundir. Reglur, viðmið og staðla varðandi þessa mikilvægu þætti vantar í íslensku vottunarkerfin. Skilyrði um slíkt er hins vegar að finna í öllum viðurkenndum alþjóðlegum verkferlum,“ segir Jón Gunnar.

Þrír aðilar hér á landi bjóða almenningi upp á kolefnisjöfnun með gróðursetningu trjáa. Skógræktin er þar á meðal og einn til viðbótar með endurheimt votlendis. Með því að leggja fram fé til að tré verði gróðursett fyrir tiltekna fjárhæð geta fyrirtæki og einstaklingar gert samning um kolefnisbindingu.

„Við erum að nota heimatilbúnar vottunarreglur sem ekki fullnægja kröfum í stað þess að horfa til alþjóðlegra vottunarkerfa,“ segir Jón Gunnar.

„Þannig er stafafura, ein algengasta tegundin í skógrækt hér á landi, víðast talin ágeng og framandi og bönnuð af því að hún þykir ógn við líffræðilegan fjölbreytileika en í íslenskum verkefnum er hún talin góð og gild hér eins og aðrar ágengar framandi tegundir,“ bætir hann við.

Þá sé óeðlilegt að umhverfisráðuneytið og Loftslagsráð hafi ekki átt frumkvæði að því að setja reglur um þessi mál heldur hafi hagsmuna­aðilar sett reglurnar sjálfir.

„Menn eru að misnota viðhorf almennings með fjárplógsstarfi. Kolefnisjöfnun má ekki snúast upp í það að verða eins og aflátsbréf miðaldanna.“

Einnig beri að hafa í huga að ef Íslendingar stefni á að taka þátt í alþjóðlegum viðskiptamörkuðum með kolefniseiningar í framtíðinni verða vottunarkerfin að vera í samræmi við alþjóðlega leiðarvísa og staðla, svo sem ISO 14064.

Skógræktarstjóri, Þröstur Eysteinsson, segir að ekkert bendi til þess að stafafura sé ágeng á Íslandi, aðstæður séu mismunandi eftir löndum. Aðeins þrjú eða fjögur lönd í öllum heiminum meti það þannig að stafafura sé ágeng.

Varðandi annað í gagnrýni Jóns Gunnars segir Þröstur að vottunarkerfi séu ekki rekin af ríkjum heldur óháðum aðilum. Hagsmunaaðilar hafi ekki sett reglurnar hér á landi heldur séu þær markaðsdrifnar og heimfærðar frá Bretlandi. Hann vísi gagnrýninni á bug.

Í skýrslu um innviði kolefnisjöfnunar sem Stefán Ólafsson umhverfisstjórnunarfræðingur skrifaði, segir að æskilegt væri að opinberir aðilar sem sinna verkefnum á sviði landnotkunar, svo sem Skógræktin, Landgræðslan og Landbúnaðarháskóli Íslands, kæmu að því að þróa reglur og viðmið sem gilda eiga hér á landi.

Þá segir í skýrslunni að enda þótt kolefniseiningar séu aldrei seldar í þeim tilgangi að veita kaupandanum friðþægingu eða undanþágu frá því að þurfa að takast á við eigin losun, þá geti slík staða engu að síður komið upp.

„Þegar um fyrirtæki er að ræða geta keyptar kolefniseiningar jafnvel verið þvottaefni fyrir grænþvott, þar sem vara fyrirtækisins er t.d. boðin til sölu sem „græn“, enda þótt kaup fyrirtækisins á kolefniseiningum hafi engin áhrif á umhverfislegt ágæti vörunnar,“ segir í skýrslunni.