Sigrún Magnúsdóttir, fyrrverandi þingmaður, umhverfisráðherra og borgarfulltrúi, sagði viðbrögð Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar við Klaustursmálinu barnaleg í Vikulokum á Rás 1.

Sigrún var lengi einn hátalaðasti stuðningsmaður Sigmundar þegar þau voru enn flokkssystkini, áður en Sigmundur klauf sig út úr Framsóknarflokknum og stofnaði Miðflokkinn. „Manni líður mjög illa yfir þessu öllu saman. Ég vann mest með Sigmundi Davíð og dáði hann fyrir margra hluta sakir. [...] Mér finnst þeir of reiðir út í allt og alla,“ sagði Sigrún í Vikulokunum.

Hún segir viðbrögð Sigmundar og annarra Klaustursmanna barnaleg, og minnist heilræða sem hún fékk frá móður sinni í bernsku. „Hún sagði að það væri ekkert betra þó að aðrir gerði hlutina. Sú hegðun sem maður sjálfur sýndi og gerði, á henni bæri maður ábyrgð. Það skipti engu máli þó aðrir hefðu gert eitthvað álíka,“ sagði Sigrún, og bætti við að henni þætti erfitt að sjá hvernig sínir fyrrum samherjar væru að „benda út og suður“ og að þeir ættu að „taka sökina“.

Spurð hvort að þingmennirnir sem sátu á frægu sumbli á Klaustursbar væri stætt áfram í embætti sagðist Sigrún ekki vilja leggja dóm á það. „Alþingi er mjög sérstakur vinnustaður. Sá sem situr þar inni lýtur því að hafa verið kosinn í frjálsum kosningum. Á meðan það styður viðkomandi er hann þingmaður að mínu mati,“ sagði Sigrún. „Á maður ekki alltaf að trúa því að menn geti bætt sig,“ bætti hún við.