Árni Gunnars­son, for­stjóri Air Iceland Connect, segir að verð á innan­lands­flugi hér­lendis sé sam­bæri­legt eða lægra en á ná­granna­löndunum en Árni var gestur í þjóð­mála­þættinum Sprengi­sandi á Bylgjunni í morgun.

Til­efnið er um­ræða um stöðu innan­lands­flugs hér­lendis og vand­ræði rekstrar­aðila. Þannig sagði Vil­hjálmur Árna­son, þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins, fyrr í vikunni að tíminn til að bregðast við væri knappur og lagði hann til frekari að­komu ríkis­valdsins að fjár­mögnun flugsins.

Fækkunin endurspegli hvernig hagvöxtur er bundinn við landssvæði

Spurður að því hvort það væri rétt metið að allir væru að tapa peningum á innan­lands­flugi segir Árni reksturinn hafa verið réttum megin við núllið þar til 2015, 2016. „Það hins­vegar er þannig að það eru ó­venju­miklar sveiflur í þessum rekstri núna. Sam­drátturinn núna er búinn að vera meiri heldur en við höfum séð á undan­förnum árum.“

Árni bendir á að fjöldi far­þega í innan­lands­flugi hafi í gegnum tíðina endur­speglað á­standið á lands­byggðinni og hvernig hag­vöxtur sé bundinn við lands­hluti. Hag­vöxtur á Austur­landi hafi verið nei­kvæður undan­farin ár og það endur­speglist í tölum um innan­lands­flug.

„Í rekstrinum okkar höfum við verið að reyna að halda úti á­ætlun sem er kannski um­fangs­meiri en markaðurinn gefur á­stæðu til,“ segir Árni. Ekki hafi tekist að halda í við fækkun fólks á lands­byggðinni. Hann segist hafa trú á því að hag­vöxtur á þessum svæðum muni aukast.

Air Iceland Connect blanda af ferðaþjónustufyrirtæki og almenningssamgangnafyrirtæki

Spurður hvers­konar fyrir­tæki Air Iceland Connect sé segir Árni það vera ein­hvers­konar blöndu. Flestir far­þegar séu hins­vegar Ís­lendingar. Á sumar­tíma telji er­lendir ferða­menn allt að þrjá­tíu prósentum í far­þega­fjölda fé­lagsins.

„Við erum al­mennings­sam­göngur. Fólk er að fara á milli staða og greiða úr eigin vasa en auð­vitað er þarna fólk líka á vegum fyrir­tækja og opin­berra aðila. Ég myndi segja að við værum svona blanda af því að vera ferða­þjónustu­fyrir­tæki og al­mennings­sam­göngur.“

Spurður hvort að ferða­manna­sprengjan hafi ekki skilað sér í innan­lands­flugið segir Árni að hlut­deild er­lendra ferða­manna í innan­lands­flugi hafi vaxið í sam­hengi við fjölgun heim­sókna þeirra til landsins. „Er­lendum ferða­mönnum hefur fjölgað veru­lega um borð hjá okkur. Það er hins vegar þannig að hlut­fall er­lendra ferða­manna sem nýta sér innan­lands­flugið er ekki hátt.“

Ef það er ekki hægt að reka þetta á þessum flug­far­gjöldum, sem margir segja að séu allt of há, hvað þá?

„Ef við berum okkur saman við sam­bæri­leg flug í ná­granna­löndunum, hvort sem það er í Noregi, Sví­þjóði eða Dan­mörku þá er verð­lag á innan­lands­flugi hér bara mjög sam­bæri­legt og alla­jafna jafn­vel ó­dýrara heldur en þar,“ segir Árni. Vörur sem séu inn­keyptar séu hins­vegar dýrari.

Spurður út í mis­muninn á verð­lagi á inn­lendu og er­lendu flugi segir Árni það vera líkt og að bera saman epli og appel­sínur. „Við erum auð­vitað með miklu minni einingar, minna markaðs­svæði. Þú ert ekki með 180 far­þega að borga flugið heldur 30, eða 50 og við erum að horfa á miklu minna lands­svæði.“

Árni segir eina leið til að bæta stöðu innan­lands­flugsins að full­fjár­magna rekstur ISAVIA á innan­lands­flugi. Önnur leið sé að gera þjónustu­samninga um á­fanga­staði. „Flug á milli Amsterdam og Strass­bourg er til dæmis á slíkum samningi og fjár­magnað af hinu opin­bera.“ Að lokum minnist Árni á skosku leiðina svo­kölluðu.