Vega­gerðin hefur gert verk­tökum sínum að halda að sér höndum þegar kemur að hálku­vörnum og snjó­mokstri. Sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins voru verk­takar kallaðir á fund með Vega­gerðinni þar sem þeim var til­kynnt að þeir mættu „ekki gera of mikið.“ Verk­takar segjast vera ó­sáttir með að fá ekki að gera það sem þurfi að gera til þess að halda götunum auðum og hálku­lausum. G. Pétur Matthías­son, upp­lýsinga­full­trúi Vega­gerðarinnar, segir ljóst að verk­tökum sé skylt að vinna sam­kvæmt samningum, vel sé staðið að allri vetrar­vinnu.

Pétur Óli Péturs­son, hjá Gatna­þjónustunni, sem sá um hálku­varnir og snjó­mokstur fyrir Vega­gerðina, segir að verk­takar séu beðnir um að gera hluti sem séu „glóru­lausir.“ Krafa hafi komið frá Vega­gerðinni nú fyrir jól um það sem hann kallar „glóru­laus“ vinnu­brögð.

Pétur Óli segir í sam­tali við Frétta­blaðið að Vega­gerðin hafi hrein­lega komið í veg fyrir að vegir hafi verið saltaðir þrátt fyrir mikla hálku og vitnar þar í tal­stöðvar­sam­tal þar sem bíl­stjóri fékk ekki heimild til þess að salta þrátt fyrir mikla hálku. Þá segir hann að bílum hafi verið bannað að skafa vegi á leið sinni til baka, þrátt fyrir gríðar­lega snjó­komu.

„Það er svona galin vit­leysa sem er í gangi og sparnaður sem er enginn sparnaður. Því þetta bitnar bara á heil­brigðis­kerfinu í staðinn,“ segir Pétur Óli. Hann segir að auk þess sé verk­tökum gert að fara færri ferðir en nauð­syn­legt sé til þess að hálku­verja götur.

Breyttar á­herslur hafi komið með nýrri vakt­stöð yfir suð­vestur­hluta landsins, en svæði hennar nær frá Hval­fjarðar­göngum og austur fyrir Hvols­völl. Hann tekur sem dæmi að farið sé fram á að Ár­túns­brekkan sé söltuð með einni ferð. Hann segir kröfurnar vera ó­raun­hæfar.

„Eins og þetta að ætla að kasta salti tólf metra breitt á götunum í Reykja­vík,“ segir Pétur. Þetta sé hægt á flug­brautum en geri lítið gagn innan bæjar í Reykja­vík þar sem ein­hver um­ferð er. „Fyrir utan að ef það er ein­hver vindur þá ertu bara að kasta saltinu út í bláinn.“

Í færslu á Face­book-síðu sinni segir hann frá því að bílar frá fyrir­tæki hans hafi verið kallaðir út til þess að vinna við snjó­mokstur og hálku­varnir, en Vega­gerðin hafi svo neitað að borga reikningana á þeirri for­sendu að of mikið hefði verið unnið þrátt fyrir að unnið hafi verið sam­kvæmt verk­samningi.

Hann segist hafa hætt að vinna fyrir Vega­gerðina á Að­fanga­dag. „Ef að ríkið neitar að greiða okkur fyrir vinnuna þá er bara sjálf­hætt,“ segir Pétur Óli. Hann segir að Vega­gerðin hafi borið fyrir sig breytt verk­lag, sem hann hafi ekki fengið að vita af fyrir fram.

Hann segir að hann hafi ekki enn séð nema hluta af greiðsluna. „Þeir bökkuðu með hluta af því og báðu mig um að þetta færi ekki í fjöl­miðla.“

G. Pétur, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, hafði ekki heyrt af umræðunni en segir Vegagerðina vanda vel til verka.
Fréttablaðið/Samsett

„Vöndum okkur mjög vel við vetrar­þjónustuna“

G. Pétur Matthías­son, upp­lýsinga­full­trúi Vega­gerðarinnar, hafði ekki heyrt af um­ræðunni vegna málsins í kvöld þegar Frétta­blaðið náði af honum tali. Hann segir hins vegar ljóst að verk­tökum sé á­vallt skylt að vinna sam­kvæmt samningum.

„Ég hef nú ekki heyrt um þetta en veit bara að við vöndum okkur mjög vel við vetrar­þjónustuna og horfum til þess að sóa ekki sandi né öðru. Við höfum feril­vöktun með það hvernig við gerum þetta þannig að það skili árangri. Ég veit bara að það er ekkert glóru­laust í því og mjög vandað til verka,“ segir G. Pétur þegar um­mæli Péturs eru borin undir hann.

Spurður út í full­yrðingar Péturs um reikninga vegna vinnu segir G.Pétur ljóst að verk­takar eigi að vinna þá vinnu sem þeir eru beðnir um. „Verk­takarnir eiga að vinna sam­kvæmt verk­samningi og það er farið gaum­gæfi­lega yfir það að þeir séu ekki að gera eitt­hvað sem þeir eiga ekki að gera,“ segir hann.

„Við biðjum um á­kveðin verk og borgum ekki fyrir það ef það er gert öðru­vísi en við biðjum um það. Það er á á­byrgð verk­takans að sjá til þess að það sé rétt unnið og við fylgjumst með því. Þetta er bara eins og ef þú ert að kaupa vöru, ef þú kaupir ryk­sugu að þá viltu að hún ryk­sugi, en borgar ekki fyrir eitt­hvað annað.“