Í fyrstu viðbrögðum sínum við nýrri þingmálaskrá, sem kynnt var á miðvikudagskvöldið, segir Helga Vala Helgadóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, innihald hennar ákveðna endurtekningu á því sem tekið var fyrir á síðasta þingi. Hún sakni fleiri aðgerða í þágu einstaklinga og segir að enn sé verið að reyna á umdeild mál sem áður hefur verið hafnað.

„Það kemur svolítið á óvart hver stóru áherslumálin eru. Ríkisstjórnin leggur mjög mikla áherslu á að halda áfram með mikil ágreiningsmál eins og útlendingafrumvarpið. Mér vitandi hefur það ekki verið unnið í samráði við þá sem best þekkja til,“ segir Helga Vala en útlendingafrumvarpið umdeilda hefur áður verið lagt fram án árangurs.

Beiting nauðungar umdeilt atriði

„Eins er beiting nauðungar líka þarna inni hjá heilbrigðisráðherra. Það snýr að lögum og réttindum sjúklingar þegar nauðung er beitt á lokuðum deildum. Með þvingaðri lyfjagjöf, refsingum og þess háttar,“ segir Helga Vala en henni líst lítið á lögfestingu slíkra hluta.

„Við í Samfylkingunni höfum tvívegis lagst mjög hart gegn þessu máli við þinglok. Ég vona að heilbrigðisráðherra sé í alvöru að ráðfæra sig við fólk sem best þekkir til,“ segir Helga Vala.

Helgu Vala telur það óljóst hverju hugmyndir Jóns Gunnarssonar, dómsmálaráðherra um sameiningu héraðsdómstóla mun áorka.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Kostir og gallar í sameiningu héraðsdómstóla

Eitt annað sem ég vil líka nefna eru hugmyndir dómsmálaráðherra um sameiningu héraðsdómstóla. Ég skil hvað hann er að hugsa og geri það aðallega út frá mínu fagi sem lögmaður. Útskýringin er sú að nýta eigi dómstólana betur og færa til verkefni. Með því ætli hann að gera þetta allt saman hagkvæmara, sem vissulega er virðingarvert að reyna að nýta sinn mannafla betur,“ segir Helga Vala sem segir að þó séu óleyst atriði sem leynist að baki slíkrar hagræðingar.

„Á móti kemur svo spurningin hvernig hann sér fyrir sér að þetta verði fyrir almenning í landinu sem þarf að reka mál fyrir dómstólum. Getur einstaklingur í Hafnarfirði lent í því að það er búið að færa mál viðkomandi til Héraðsdóms Vestfjarða á Ísafirði, til þess að nýta betur mannaflann sem þar er? Hver borgar þá flugferðir lögmanns og svo málsaðila þegar fara þarf á milli? Leggst það á einstakling sem ætlar að leita réttar síns eða bera stjórnvöld kostnað við þetta? Þetta er ekki eins og sýslumannsembættið sem getur dreift verkefnum í gegnum tölvukerfi. Í dómsmálum eru fyrirtökur og þá þarf að mæta þangað. Svo ég sé ekki að þetta hafi verið skoðað alveg til enda,“ segir Helga Vala.

Atriðin sem vantar

Um það hvað henni finnst vanta á þingmálaskránna segir Helga Vala að hún sakni aðallega beinna aðgerða í þágu efnahags einstaklinga og almennings. „Það er mikið af regluverki, heildarendurskoðun og öðru svoleiðis sem inniheldur áætlanir um stefnumótandi aðgerðir en minna um það að raunverulega sé verið að koma með kröftugar haldbærar aðgerðir í þágu almennings. Ég sakna þess að sjá ekki þarna þingmál varðandi launaþjófnaðinn sem var partur af lífskjarasamningnum,“ segir hún.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra er einn þeirra ráðherra sem Helga Vala telur að bætt geti bætt við sig málefnum.
Fréttablaðið/Eyþór

Vantar meiri stuðning við afreksíþróttafólk

Ráðherra sem bæta mætti við sig málefnum á tímabilinu er meðal annars mennta- og barnamálaráðherra sem hún segir með of fá mál sem ekki séu nægilega framsækin.

„Þau eru öll svona í því sama og unnið var á síðasta kjörtímabili,“ segir Helga Vala sem hefði viljað sjá fleiri mál sem styrkja stöðu afreksíþróttafólks

„Ég sé að hann er með breytingar á lögum um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs. En hann er ekki neitt sem varðar til dæmis afreksíþróttafólkið sem hann þó tók að sér og var vísað til hans að framkvæma,“ segir Helga Vala og heldur áfram:

„Bara svona rétt eins og starfslaun hjá öðrum hópum eins og skákfólks og listamanna til dæmis. Af því okkar afreksfólk þarf að vinna fullan vinnudag samhliða því að vera á æfingum. Á meðan afreksfólk annarra landa getur helgað sig verkefninu að fara á stórmót erlendis,“ segir Helga Vala og tekur dæmi úr þeim veruleika sem íslenskir íþróttamenn standa oft frammi fyrir.

„Að þurfa meðal annars að ganga í hús og selja fisk og annað. Þetta er auðvitað eitthvað sem er skrýtið á sama tíma og okkur finnst æðislegt að fara út í heim og horfa á okkar fólk, strákana okkar og stelpurnar okkar, þá erum við ekki að gera neitt og mér finnst erfitt að sjá ekkert frá íþróttamálaráðherranum fyrir þennan hóp,“ segir hún