Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segist ekki sjá annað fyrir sér en að víkja af vettvangi stjórnmálanna ef Guðlaugur Þór Þórðarson kemur til með að hampa sigri og hljóta formannsstólinn á landsfundi Sjálfstæðisflokksins næstu helgi. Hann trúi því þó ekki að það muni gerast. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.
„Staða Guðlaugs er svo bara allt annað mál. Ég hef ekki trú á öðru en að við getum unnið úr niðurstöðunni eftir þennan fund,“ segir Bjarni. Það liggi í hlutarins eðli að oddviti Reykjavíkur þurfi að hafa sterka rödd við ríkisstjórnarborðið.
„Mér finnst það nú algjörlega ástæðulausar vangaveltur, hver staða hans verður eftir formannskosninguna,“ segir Bjarni.
Bjarni segir ofboðslega margt búið að ganga á á hans pólitíska ferli. Hann hafi verið í eldlínunni frá 2009 og leiðtogi sjálfstæðismanna í hverjum kosningunum á eftir öðrum.
„Og ef það er komið að þeim tímamótum hjá mér í mínum pólitíska ferli, sem ég reyndar held að sé ekki tilvikið, þá finnst mér það bara vera stór tímamót,“ segir Bjarni. Þá kveðst hann sitja áfram sem fjármálaráðherra út kjörtímabilið ef hann vinni formannskosningarnar.