Strætisvagninn sem þveraði Hverfisgötu og lokaði fyrir umferð hefur nú losnað og kominn leiðar sinnar. Umferð gengur nú í báðar áttir.
Vagninn festist eftir að hafa runnið niður götuna og sat þar fastur í rúman hálftíma. Þegar blaðamaður Fréttablaðsins kom á vettvang sagði vagnstjórinn að atvikið væri tilkomið vegna lélegs dekkjabúnaðar.
Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir strætisvagnana nægilega vel búna til að takast á við aðstæður sem þessar.
„Já, þeir eru vel búnir til að takast á við þessar aðstæður,“ segir hann í samtali við Fréttablaðið. „Okkar vagnar fara allir á vetrardekk.“
Aðstæður á vegum borgarinnar versnuðu skömmu áður en vagninn festist þegar mikil hríð skall á. Veðurstofa Íslands hefir gefið út gular- og appelsínugular viðvaranir fyrir 30. og 31. janúar. Vegfarendur eru beðnir að kynna sér veðurspár áður en lagt er af stað.