„Ég var einn sjö að­gerða­sinna sem voru hand­teknir við frið­sam­leg mót­mælti í Reykja­vík fyrir tveimur árum,“ segir tón­listar­maðurinn Julius Rot­hland­er.

Aðal­með­ferð í máli lög­reglunnar og hins opin­bera gegn Juliusi fer fram í Héraðs­dómi Reykja­víkur í fyrra­málið en hann er á­kærður fyrir að fylgja ekki fyrir­mælum lög­reglu sam­kvæmt 19. grein lög­reglu­laga.

Julius birti yfir­lýsingu á Insta­gram-síðu hljóm­sveitar sinnar BSÍ þar sem hann hvetur fólk til að sýna sam­stöðu og berjast fyrir réttindum flótta­fólks á Ís­landi. Julius fer hörðum orðum um ís­lensk yfir­völd og segir stefnu dóms­mála­ráðu­neytisins, Út­lendinga­stofnunar og lög­reglunnar ein­kennast af for­dómum.

Vill berjast gegn rasisma á Íslandi

„Við­brögðin frá dóms­mála­ráðu­neytinu, ÚTL og ís­lensku lög­reglunni hafa verið skýrt dæmi um þeirra rót­grónu fjand­sam­legu og rasísku stefnu: Flótta­mönnunum sem komu af stað og tóku þátt í mót­mælunum hefur nú öllum verið vísað úr landi, að­gerða­sinnarnir sem voru hand­teknir hafa verið dregnir fyrir dóm og sektaðir.“

Þá segist hann vilja nýta tæki­færið til að minna sjálfan sig og aðra á mikil­vægi sam­stöðu, þess að spyrja spurninga, að styðja flótta­menn og styðja hvort annað í að standa upp fyrir mann­úð­legu sam­fé­lagi.

„Það er kominn tími til að á­varpa og berjast gegn ras­isma á Ís­landi, það er kominn tími til að leggja niður ÚTL og sýna að þetta sam­fé­lag er full­fært um að sýna meiri sam­úð og mennsku, full­fært um að bjóða fólk vel­komið sem biður um hjálp og vill búa hér. Takk fyrir stuðninginn og sam­stöðuna!“ segir Julius að lokum.

Mál Júlíusar er hluti af 19. greinar málunum sem eru mál sjö ein­stak­linga sem eiga það sam­eigin­legt að hafa öll verið hand­tekin fyrir þátt­töku sína í mót­mælum til stuðnings flótta­fólki á vor­mánuðum 2019.

Í maí síðast­liðnum var að­gerða­sinninn Elín­borg Harpa Önundar­dóttir, einn sjö­menninganna, sak­felld í Héraðs­dómi Reykja­víkur í öllum á­kæru­liðum, meðal annars fyrir að hafa brotið gegn 19. grein lög­reglu­laga sem kveður á um skyldu að fylgja fyrir­mælum lög­reglunnar.

Nánari upp­lýsingar um mál Juliusar má nálgast á Face­book síðunni Sam­staða er ekki glæpur.