Ragn­hildur Alda María Vil­hjálms­dóttir, nýr borgar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokksins í Reykja­vík, segir út­spil Við­reisnar og banda­lags þeirra við Pírata og Sam­fylkingu and­lýð­ræðis­legt. Sjálf­stæðis­menn geti vel unnið í meiri­hluta þrátt fyrir ó­líkar skoðanir.

Einar Þor­steins­son, odd­viti Fram­sóknar, sagði í sam­tali við blaðið í gær að Sjálf­stæðis­flokkurinn sé nú í reynd úti­lokaður úr meiri­hluta­sam­starfi, eftir út­spil Þór­dísar Lóu Þór­halls­dóttur, odd­vita Við­reisnar. Þór­dís lýsti því yfir í gær að Við­reisn myndi ekki brjóta raðir banda­lags með Sam­fylkingu og Pírötum en þeir síðast­nefndu hafa úti­lokað sam­starf við Sjálf­stæðis­flokkinn í borginni.

Ekki náðist í Hildi Björns­dóttur, odd­vita flokksins vegna málsins. Ragn­hildur Alda, sem skipar 2. sæti á lista Sjálf­stæðis­flokksins í borginni, segir að­spurð að út­spil Við­reisnar komi sér spánskt fyrir sjónir.

„Vilji kjós­enda var mjög skýr í þessum kosningum. Það er bara þannig. Þú getur hugsað þetta eins og hún gerir, sem er að halda fast í eitt­hvað banda­lag sem var í raun og veru hafnað, eða þá að muna að þitt hlut­verk sem kjörinn full­trúi er ekki að vera bara í fram­boði fyrir fólkið sem þú vilt meina að kjósi þig heldur alla borgar­búa,“ segir Ragn­hildur.

„Auð­vitað býð ég mig fram fyrir mína kjós­endur, en ég þarf að starfa fyrir alla. Þá tel ég fyrir vikið svo­lítið and­lýð­ræðis­legt að vera í þessari úti­lokunar­pólitík, því sama hvernig menn vilja reyna að rétt­læta það þá snýst þetta um heildina en ekki bara hinn og þennan.“

Ragn­hildur rifjar upp þegar faðir hennar, Vil­hjálmur Egils­son, sat á þingi. „Ég spurði hann út í þetta: „Getið þið unnið með þessum og hinum?“ og hann sagði bara: „Alda, þetta er ein­fald­lega svo­leiðis að pólitík er alltaf á­kveðin mála­miðlun á milli stríðandi fylkinga, þannig náum við besta gullna meðal­veginum. Þannig mitt hlut­verk er að reyna að semja um okkar mikil­vægustu mál og svo vinnum við með öllum.“ Það er kannski munurinn á minni hug­mynda­fræði og hennar, ég er að starfa fyrir alla,“ segir Ragn­hildur og vísar þar til Þór­dísar Lóu.

Segir um að ræða eftiráskýringu Þórdísar Lóu

Þór­dís Lóa sagði í sam­tali við blaðið í gær að 60 prósent kjós­enda hefðu sett at­kvæði sitt á flokka sem hefðu verið skýrir í stuðningi sínum við sam­göngu­sátt­mála og borgar­línu. Sjálf­stæðis­flokkur og Flokkur fólksins hefðu ekki verið skýrir í sínum svörum.

Sjálf sagðist Ragn­hildur Alda í sinni próf­kjörs­bar­áttu meðal annars vera á móti borgar­línu. Að­spurð hvort að það bitni nú á Sjálf­stæðis­flokknum í meiri­hluta­við­ræðum hve ó­líkar skoðanir sé að finna meðal borgar­full­trúa þeirra segist Ragn­hildur ekki telja svo vera.

„Ég held ekki. Ég held þetta sé eftir­á­skýring Lóu, til að geta verið með úti­lokunar­pólitík. Stað­reyndin er sú að Sjálf­stæðis­flokkurinn hefur alltaf verið breið­fylking af á­stæðu, við lifum eftir þeirri hug­mynda­fræði að það sé mikil­vægt að taka um­ræðuna og að í krafti fjöldans náirðu bestu niður­stöðu,“ segir Ragn­hildur.

„Þar af leiðandi erum við ekki á þeirri línu að gera ráð fyrir því að maður viti alltaf best. Það er á­kveðin skekkja að halda að maður viti allt best og þess vegna erum við opin fyrir því að það séu stríðandi skoðanir sem er þá bara tekin um­ræða um á lands­fundum og flokk­stjórnar­fundum og svo vinnum við bara saman.“

Ragn­hildur segir Sjálf­stæðis­menn því ekki tengja við það hvernig Þór­dís Lóa leggi upp hlutina í meiri­hluta­við­ræðum. „Því að okkar skoðun er sú að það sé allt í lagi að vera ekki alveg full­kom­lega sam­mála um smá­at­riðin. Þetta snýst um að ná árangri en ekki völdum.“