Skjáskot af sögu af Instagram-reikningi með fjölda fylgjenda hafa gengið manna á milli þar sem fjáröflunarsímtal frá UNICEF er harðlega gagnrýnt. Í skjáskotinu segir að óskað hafi verið eftir því að Unicef myndi fá að erfa einstaklinginn sem hringt var í.

María Gomez, fagurkeri og matarbloggari sem stendur að baki Instagram-reikningnum sem birti skjáskotið, segir í samtali við Fréttablaðið að símtalið sem um ræðir hafi átt sér stað fyrir tveimur árum en að hún hafi fyrst frétt af því núna. Henni hafi ofboðið og að hún hafi viljað vekja athygli á málinu.

Byggt á misskilningi

Ingibjörg Magnúsdóttir, fjáröflunarstjóri Unicef, segir málið byggt á misskilningi og að í raun geti enginn einstaklingur ákveðið að láta allan arf sinn renna til góðgerðamála heldur geti fólk aðeins gefið litla prósentu.

Ingibjörg staðfestir að símtölin hafi átt sér stað fyrir tveimur árum en að þá hafi verið hringt í þáverandi styrktaraðila samtakanna þar sem nýtt erfðagjafaverkefni hafi verið kynnt fyrir einstaklingum á öllum aldri.

„Á þeim tíma þá hringdum við í núverandi styrktaraðila, fólk á öllum aldri sem er nú þegar að gefa mánaðarlega og hefur getu til þess, til að kynna þennan nýja möguleika. Eingöngu til að kynna hann ekki til þess að biðja um erfðagjöf heldur til að kynna möguleikann,“ segir Ingibjörg.

Hér má sjá skjáskotin sem hafa gengið manna á milli frá því í gær.
Fréttablaðið/Skjáskot af Instagram

Fólki leist vel á möguleikann

Ingibjörg segir að erfðagjafir hafi fyrst komið upp á borð Unicef fyrir nokkrum árum og að þá hafi verið framkvæmd viðhorfskönnun hjá þáverandi styrktaraðilum og fólk spurt hvernig þeim litist á slíkan möguleika.

„Sú könnun kom mjög vel út þannig að við ákváðum að innleiða þetta sem einn af mörgum möguleikum til að styðja starf Unicef,“ segir Ingibjörg og bætir við að í kjölfarið hafi símtölin farið fram.

Að sögn Ingibjargar tóku einstaklingar mjög vel í kynningar símtölin fyrir tveimur árum þegar þau fóru fram og að hringt hafi verið í fólk á öllum aldri, „enda eru styrktaraðilar okkar á öllum aldri.

Þetta hefur ekkert verið kynnt meira eftir það, þetta er bara valmöguleiki sem flestir styrktaraðilar okkar vita af og sumir hverjir nýta sér,“ segir Ingibjörg og bætir við að fólki geti aðeins gefið ákveðna prósentu sem erfðagjöf.

Þá séu fleiri góðgerðafélög sem bjóði upp á sama möguleika og að yfirlit yfir þau félög megi finna á vefsíðunni erfdagjafir.is.

Ingibjörg segir að hún hefði viljað fá ábendingu inn til Unicef vegna málsins áður en að því var dreift meðal þúsunda manna, málið sé viðkvæmt þar sem um erfðagjafir sé að ræða. Samtökin hafi nálgast verkefnið með mjög mikilli nærgætni og hafi ekki tekið valmöguleikann upp fyrr en eftir viðhorfskönnunina.

Vildi vekja athygli á málinu

„Ég er ekki að reyna skemma fyrir Unicef, þau eru að vinna gott starf en þetta er bara hættulegt og getur haft áhrifaríkar afleiðingar fyrir fólk og fjölskyldur,“ segir María um málið í samtali við Fréttablaðið.

Þá séu margir í viðkvæmri stöðu gagnvart erfðamálum og að henni finnist þetta í raun alls ekki í lagi.

Að sögn Maríu brugðust margir við sögunni hennar um málið, í raun hafi pósthólfið hennar fyllst í kjölfarið. Hún segist ekki sjá eftir því að hafa vakið athygli á málinu og ætlar að halda áfram með umræðuna.