Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar átti í orðadeilum við Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokkins, á Alþingi í dag um átak gegn undirmönnun í almannaþjónustu.

Vísaði Logi í bráðabirgðaskýrslu um stöðuna á Landakoti þar sem fram kom að aðbúnaður hafi verið ófullnægjandi og sennilega megin orsök þeirrar miklu smitdreifingar sem varð í lok október. Starfsmenn hafi þurft að fara á milli deilda vegna manneklu til þess að sækja búnað.

„Ef hugmyndafræðin er sú að auka á þann vanda þá held ég að menn sjái ekki skóginn fyrir trjánum.“

Logi spurði ráðherrann í óundirbúnum fyrirspurnum hvort hann teldi mögulegt að ná samstöðu á Alþingi um nauðsynlegar úrbætur til að ráðast gegn undirmönnun í heilbrigðis og öldrunarþjónustu með því að fjölga opinberum störfum. Sagðist Bjarni ekki telja að mönnunarvandi væri rót vandans. Að hans mati væri hrun í einkageiranum rót vandans.

„Við verðum að ráðast á þá rót með því að örva, skapa og tryggja að viðspyrna sé til staðar, auka landsframleiðsluna að nýju vegna þess að ef það mistekst þá höfum við ekki efni á að halda úti þeirri opinberu þjónustu sem við höfum í dag, hvað þá að fara að stækka kökuna þeim megin. Við munum ekki hafa efni á því. Við erum að gera það með 300 milljarða halla tæplega á þessu ári og munum gera það aftur á næsta ári,“ sagði Bjarni og bætti við:

„Ef hugmyndafræðin er sú að auka á þann vanda þá held ég að menn sjái ekki skóginn fyrir trjánum.“ Að mati Bjarna þurfi að stokka kerfið upp með róttækari endurskoðun.

Logi sagði Bjarna vera að afvegaleiða umræðuna. Samfylkingin hafi lagt áherslu, á bæði að búa til störf í einkageiranum og nauðsynleg störf í almannaþjónustu .

„Það er innbyggður halli í rekstri heilbrigðiskerfisins og hjúkrunarkerfisins. Það er ýmislegt fleira blóðug sóun heldur en að stunda fjárútlát. Það er sóun að dreifa peningum með óskilvirkum hætti eins og var gert til dæmis í leiðréttingu heimilanna. Það er sóun að láta handvömm ráðherra, eins og í Landsréttarmálinu, kosta ríkið tugi milljóna. En það er líka sóun að fjármagna mikilvæg heilbrigðiskerfið á þann hátt að kostnaðurinn komi fram annars staðar,“ sagði Logi.

Bjarni sagði hann nálgast málið frá röngum enda. Hann sjái fyrir sér stærri og öflugri sjálfseignarstofnanir til að sinna þessum verkefnum. Ríkisstjórnin væri að ræða fjölgun rýma og tryggja fjármagn þar á við.

„Mér finnst að það þurfi að fara miklu dýpra ofan í rót kerfisins og skilgreina upp á nýtt og horfa á þetta út frá þeim sem eiga að þiggja þjónustuna, að fé fylgi fólki og þannig muni þjónustuleiðirnar skapast. Það er mín skoðun,“ sagði Bjarni að lokum.