Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir ófærð og lokanir á Reykjanesbrautinni síðustu tvo sólarhringa um að kenna að flugum til og frá landinu hafi verið aflýst. Keflavíkurflugvöllur hafi í raun og veru verið starfhæfur bæði í gær og í dag.
Guðjón ræddi atburði síðustu daga í Kastljósi á RÚV fyrr í kvöld, þar á meðal það upplausnarástand sem skapaðist á Keflavíkurflugvelli í kjölfar ófærðar og niðurfellinga fluga til og frá landinu síðustu daga. Fjöldi ferðalanga sem sátu þar fastir í fleiri klukkutíma hafa farið mikinn á samfélagsmiðlum og lýst yfir gríðarlegri óánægju með hvernig staðið hafi verið að málum. Þar gagnrýna þeir harðlega bæði flugfélögin sem og flugvöllinn fyrir skort á upplýsingum, þjónustu og vistum.
Að sögn Guðjóns lá stóri vandi rekstraraðila flugvallarins í undirmönnun á flugvellinum. Erfiðlega hafi gengið að koma starfsfólki til vinnu vegna ófærðar.
„Við teljum að okkar fólk hafi unnið gríðarlega öflugt starf í að hjálpa fólki sem var statt þarna á flugvellinum,“ segir Guðjón.
Þá hafi flugvélar vel geta lent og tekið á loft í gær og í dag. Þó hafi komið stuttur tími í nótt þar sem vindhraðinn var svo mikill að ekki var hægt að nota landganga.
„Vandinn var sá að farþegar komust ekki til flugvallarins og ekki frá flugvellinum og starfsfólk ekki heldur, hvort sem það var starfsfólk okkar á flugvellinum eða áhafnir flugfélaganna. Og áhafnir eru náttúrulega þeir aðilar sem fara fyrstir um borð,“ segir Guðjón.