Guð­jón Helga­son, upp­lýsinga­full­trúi Isavia, segir ó­færð og lokanir á Reykja­nes­brautinni síðustu tvo sólar­hringa um að kenna að flugum til og frá landinu hafi verið af­lýst. Kefla­víkur­flug­völlur hafi í raun og veru verið starf­hæfur bæði í gær og í dag.

Guð­jón ræddi at­burði síðustu daga í Kast­ljósi á RÚV fyrr í kvöld, þar á meðal það upp­lausnar­á­stand sem skapaðist á Kefla­víkur­flug­velli í kjöl­far ó­færðar og niður­fellinga fluga til og frá landinu síðustu daga. Fjöldi ferðalanga sem sátu þar fastir í fleiri klukkutíma hafa farið mikinn á samfélagsmiðlum og lýst yfir gríðarlegri ó­á­nægju með hvernig staðið hafi verið að málum. Þar gagn­rýna þeir harð­lega bæði flug­fé­lögin sem og flug­völlinn fyrir skort á upp­lýsingum, þjónustu og vistum.

Að sögn Guð­jóns lá stóri vandi rekstrar­aðila flug­vallarins í undir­mönnun á flug­vellinum. Erfið­lega hafi gengið að koma starfs­fólki til vinnu vegna ó­færðar.

„Við teljum að okkar fólk hafi unnið gríðar­lega öflugt starf í að hjálpa fólki sem var statt þarna á flug­vellinum,“ segir Guð­jón.

Þá hafi flug­vélar vel geta lent og tekið á loft í gær og í dag. Þó hafi komið stuttur tími í nótt þar sem vind­hraðinn var svo mikill að ekki var hægt að nota land­ganga.

„Vandinn var sá að far­þegar komust ekki til flug­vallarins og ekki frá flug­vellinum og starfs­fólk ekki heldur, hvort sem það var starfs­fólk okkar á flug­vellinum eða á­hafnir flug­fé­laganna. Og á­hafnir eru náttúru­lega þeir aðilar sem fara fyrstir um borð,“ segir Guð­jón.