Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn hjá al­manna­varna­deild ríkis­lög­reglu­stjóra, ræddi um helstu sam­komu­tak­markanir í Kast­ljósinu í kvöld þar sem hann sagðist telja að að­gerðirnar sem til­kynntar voru í dag væru skyn­sam­legar en að fólk væri oft á „villi­götum“ þegar kemur að landa­mærunum.

Ný reglu­gerð um sam­komu­tak­markanir innan­lands var kynnt í dag en frá og með 15. apríl munu sam­komu­tak­markanir miða við 20 manns auk þess sem opnað verður til að mynda fyrir að­gengi að sund­laugum og líkams­ræktar­stöðvum og á­horf­endur verða leyfi­legir í í­þróttum og sviðs­listum á ný.

Engar breytingar voru á landa­mærunum þar sem nýjar reglur hafa verið í gildi frá 9. apríl. Sömu reglur gilda nú um alla far­þega og þurfa allir að fara í tvær sýna­tökur með sótt­kví á milli, fyrir utan þá sem eru með vott­orð um bólu­setningu eða fyrri sýkingu. Fjöl­margir hafa kallað eftir enn harðari reglum og jafn­vel að landa­mærunum yrði hrein­lega lokað.

„Mér finnst þessi um­ræða um landa­mærin oft vera dá­lítið á villi­götum, þegar fólk er að kalla eftir því að loka landa­mærunum, hvað þýðir það?“ sagði Víðir að­spurður um málið í Kast­ljósi og spurði hvort fólk vildi ef til vill að engin skip eða flug­vélar gætu komið til landsins. „Ég sé ekki alveg fyrir mér hvernig það er.“

„Við þurfum að hafa landa­mærin opin að því leitinu til að við þurfum fólk í landið sem er með sér­fræði­þekkingu, við þurfum vörur inn í landið, og ferða­þjónustan er auð­vitað at­vinnu­grein líka sem að er svo­lítið að sjá ljósið núna, en ég held bara að þær að­gerðir sem við erum búin að vera með á landa­mærunum eru skyn­sam­legar,“ sagði Víðir enn fremur.

Reyna að hafa landamærin opin en örugg

Þrátt fyrir að smit hafi verið að greinast innan­lands út frá landa­mæra­smitum segir Víðir að nú­verandi kerfi grípi flesta og að þrátt fyrir að landa­mærunum hafi ekki verið lokað þá séu þau að gera þau eins örugg og hægt er, til að mynda með tvö­faldri skimun og einni skimun fyrir þá sem hafa þó verið bólu­settir.

„Það er mjög mikil­vægt að menn dragi djúpt andann og horfi á þetta að­eins í raun­veru­leikanum og sjái hvernig er best að gera þetta. Ég hef ekki heyrt neinn í stjórn­kerfinu tala um það að við ætlum að fara að leggja líf og heilsu al­mennings í ein­hverja hættu með opnun landa­mæranna, það eru allir að tala um að það þurfi að taka skyn­sam­legar á­kvarðanir, byggða á stöðunni innan­lands og byggða á stöðunni í þeim löndum sem að okkar gestir eru að koma frá.“

Það er þó ekki að­eins staðan á landa­mærunum sem hefur leitt til gagn­rýni en margir hafa nú komið því á fram­færi að með nýjustu reglu­gerðinni innan­lands séu yfir­völd að fara fram úr sér, þar sem smit eru enn að greinast utan sótt­kvíar þó þau séu vissu­lega fá. Víðir segist telja að þetta sé rétta á­kvörðunin á þessum tíma­punkti en skilur gagn­rýnina.

„Ég tek ekki gagn­rýni á þetta sem ein­hvern þrýsting, það er bara hluti af eðli­legri um­ræðu og við leggjum öll af mörkum í þessari um­ræðu þegar það er verið að velta fyrir sér hvað á að gera,“ sagði Víðir. „Ég held að þetta sé sex­tugasta skiptið sem við erum að breyta reglunum í kringum þetta og í mjög mörgum til­fellum höfum við fengið með á­bendingar sem hafa gert hlutina betri.“

Hægt er að horfa á viðtalið við Víði í heild sinni á vef RÚV.