Elísabet Ýr Atladóttir, stjórnandi Facebook-hópsins „Aktivistar gegn nauðgunarmenningu“ og einn mest áberandi femínisti Íslands í dag er ómyrk í máli í pistli sem hún birti á Facebook-síðu sinni í dag. Þar tjáir hún sig um mál Ólafs William Hand sem var á dögunum dæmdur í héraðsdómi fyrir ofbeldi gegn barnsmóður sinni.

Í pistlinum segir Elísabet að ásakanir á hendur mæðrum um tálmanir sé „ein áhrifaríkasta leið sem ofbeldismenn hafa til að til að sækja sér vorkunn og stuðning“. Hún gagnrýnir jafnframt þá sem hún kallar heigla og meðvirka. „Þetta er flótti þeirra sem vilja ekkert illt sjá né heyra, og vilja helst þagga það allt í hel. En þau spila sig sem einhverskonar meðalhófsfólk sem vill bara að allir hugsi sinn gang áður en þau tala um málefni dagsins. Og þeir einu sem græða á þögninni eru ofbeldismennirnir,“ skrifar Elísabet.

Hún vísar í nýlegt mál Ólafs William Hand, sem var á dögunum dæmdur fyrir líkamsárás gegn barnsmóður sinni og brot á barnaverndarlögum. Fjallað var um mál Ólafs á Fréttablaðið.is í gær. Ólafur var um árið í löngu viðtali við Stöð 2 þar sem hann lýsti meintum tálmunum barnsmóður sinnar og sagðist ekki hafa fengið að hitta dóttur sína í átta mánuði. Viðtalið var í febrúar 2017 og er það einmitt átta mánuðum eftir þau atvik sem Ólafur var dæmdur fyrir í héraði.

„Núna er búið að dæma Ólaf William Hand fyrir ofbeldið sem hann beitti barnsmóður sína. Það má segja það opinberlega að hann er ofbeldismaður - enda er hann dæmdur fyrir ofbeldi. En hann er ekkert sá eini sinnar tegundar, enda er hann bara einn af mörgum mönnum sem ljúga upp á barnsmæður sínar "tálmun" til að fegra sinn hlut af því að vera deadbeats eða til að fela ofbeldið sem þeir hafa beitt,“ segir Elísabet í pistli sínum.

Í ágúst fjallaði Fréttablaðið jafnframt um kæru Gunnars Kristins Þórðarsonar, forsvarsmanns Feðrahreyfingarinnar, á hendur Elísabetar og annarrar konu.

Pistill Elísabetar í heild:

"Það eru tvær hliðar á öllum málum".

"En við vitum ekkert hvað gerðist í raun".

"Fjölskylduharmleikur er ekki okkar að dæma".

Og fleiri og fleiri og fleiri orð sem heiglarnir og meðvirkir láta falla þegar ofbeldismenn eru dæmdir. Þetta er flótti þeirra sem vilja ekkert illt sjá né heyra, og vilja helst þagga það allt í hel. En þau spila sig sem einhverskonar meðalhófsfólk sem vill bara að allir hugsi sinn gang áður en þau tala um málefni dagsins. Og þeir einu sem græða á þögninni eru ofbeldismennirnir.

Núna er búið að dæma Ólaf William Hand fyrir ofbeldið sem hann beitti barnsmóður sína. Það má segja það opinberlega að hann er ofbeldismaður - enda er hann dæmdur fyrir ofbeldi. En hann er ekkert sá eini sinnar tegundar, enda er hann bara einn af mörgum mönnum sem ljúga upp á barnsmæður sínar "tálmun" til að fegra sinn hlut af því að vera deadbeats eða til að fela ofbeldið sem þeir hafa beitt. Að ásaka konur um "tálmun" er ein áhrifaríkasta leið sem ofbeldismenn hafa til að sækja sér vorkunn og stuðning, því fólk er svo sannarlega tilbúið að trúa því að konur tálmi umgengni af hefnigirninni einni saman. Ofan í það blandast hin aldalanga hefð að trúa því að konur ljúgi um ofbeldi - þetta er hin fullkomna tvenna, tálmunarmóðir sem laug til um ofbeldi svo hún gæti haldið barninu frá aumingja grunlausa föðurnum sem elskar bara barnið sitt svo mikið. Hann er að berjast fyrir "rétti barnsins" til að "umgangast báða foreldra". Þvílík hetja. Skelfingar ömurleiki er það að konur skuli gera bangsapöbbum landsins þetta, að halda frá þeim börnunum. Beitti hann hana ofbeldi? Nú saklaus uns sekt er sönnuð.

En þegar sektin er sönnuð kemur önnur mynd á þöggunina, því þá þarf að finna aðrar leiðir til að afsaka ofbeldismennina eða þagga umræðuna. Þá er spurt hvort það séu ekki tvær hliðar á þessu máli. Því það getur hreinlega ekki verið að konan hafi ekki á einhvern hátt beðið um að vera barin.

Þetta er það sem ég kalla oft gerendameðvirkni. En þetta er líka hreinlega aumingjaskapur fólks sem þolir ekki að heimurinn sé ekki svo svart-hvítur að "góður maður" geti ekki verið ofbeldismaður líka. Þau vilja hetjurnar sínar og vondu kallana, og svo meðalmanninn, en vondu kallarnir eru alltaf augljósir og uppfullir af illsku, á meðan hetjurnar og meðalmaðurinn eru uppfullir af góðmennsku eða grunlausir og afskaplega mellow. Vondu kallarnir brosa ekki nema það sé illskulegt glott.

En ofbeldismenn eru venjulegir menn. Þeir geta verið "hetjur" og þeir geta verið meðalmenn. Þeir geta gert afskaplega fallega hluti fyrir einhvern áður en þeir fara heim og níðast á fjölskyldu sinni. Þeir geta farið í venjulegu vinnuna sína í venjulegu fötunum sínum í venjulegu skapi áður en þeir fara heim og sýna viðurstyggilega hegðun og beita ógeðslegu ofbeldi. Þar sem þeir mega það. Bara "fjölskylduharmleikur" sem hefur ekkert með neitt að gera nema bara fjölskylduna. Eitthvað sem enginn ætti að tala um, enda er hann svo fínn gaur.

En fólk trúir þessum mönnum frekar en konum sem segja frá ofbeldi. Það er svo miklu auðveldara, því fólk þarf ekki að gera neitt ef þeir trúa ofbeldismanninum. Bara sýna hvað þau eru hneyksluð á því að menn skuli þurfa að upplifa svona skelfilega tálmun og hrylling, og halda svo áfram lífinu. Að styðja þolendur er eitthvað sem krefst meira. Það krefst þess að fólk sleppi takinu á mýtunum um lygsýki kvenna og undirförult eðli. Það krefst þess að þau taki afstöðu.

Takið afstöðu. Hættið að styðja ofbeldismenn. Gerið eitthvað meira en að stinga höfðinu í sandinn. Gerið það þótt það sé erfitt og þótt það þýði breytingar. Gerið það þótt það orsaki óþægilegar umræður í ykkar innstu hringjum. Það er það eina rétta í stöðunni og það er engin afsökun til að gera það ekki.