Álfhildur Leifsdóttir, bæjarfulltrúi VG og óháðra í Skagafirði, gagnrýnir Umhverfisstofnun og N1 harðlega vegna viðbragða eftir að í ljós kom jarðvegsmengun út frá bensínstöð N1 á Hofsósi fyrir nokkrum árum.

Í bókun í byggðarráði vitnar Álfhildur til fyrstu greinar laga um hollustuhætti og mengunarvarnir þar sem segir að markmið laganna sé að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi. Sömuleiðis sé markmiðið að koma í veg fyrir eða að draga úr losun út í andrúmsloft, vatn og jarðveg og koma í veg fyrir myndun úrgangs til að vernda umhverfið.

„Það mætti ætla að Umhverfisstofnun hafi gleymt að horfa á þessi markmið laganna því stofnunin hefur ekki eingöngu leyft úrvinnslu þessa mengunarslyss að dragast fram úr hófi, heldur einnig horft of mikið til fyrirtækja og umhverfisins en gleymt fólkinu sem hefur hrakist af heimilum sínum sem og frá fyrirtækjarekstri,“ segir Álfhildur í bókun sinni sem Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir, flokkssystir hennar, skrifar einnig undir.

Fjarlægja þurfi allan mengaðan jarðveg

„Einnig er óhætt að gagnrýna ábyrgðarleysi fyrirtækisins N1 sem hampar sér á því að samfélagsleg ábyrgð skipti fyrirtækið miklu máli en athafnir fyrirtækisins eru aldeilis ekki í neinu samræmi við þau orð,“ heldur Álfhildur áfram og bætir við að tímabært sé að N1 og Umhverfisstofnun „axli ábyrgð og komi hlutum í sem best form á sem stystum tíma“.

Byggðarráðið í heild bókaði einnig um málefni bensínstöðvarinnar á Hofsósi og segir markmið með hreinsunaraðgerðum þar eiga að vera að hreinsa hið mengaða svæði í heild sinni. Hreinsun í litlum áföngum muni leiða til langvarandi rasks. Fjarlægja þurfi allan mengaðan jarðveg og meðhöndla á viðeigandi hátt.

„Í þessu sambandi skal bent á að á meðan Umhverfisstofnun hefur enn ekki leitast við að upplýst verði hve mikið af olíu hafi runnið úr hinum leka eldsneytistanki sé örðugt að hafa fullt traust á hreinsunarfyrirmælum stofnunarinnar sem lúta einungis að hluta útbreiðslusvæðis mengunarinnar“, bókar byggðarráðið og kveðst árétta mikilvægi þess að stofnun hafi alltaf samráð við sveitarfélagið þegar fjallað er um hagsmuni þess sem eiganda lands og mannvirkja á svæðinu. „En á því hafi orðið misbrestur.“