Steve Bannon, fyrrverandi pólitískur ráðgjafi Donald Trump, segir Trump hafa verið tilbúinn til að ljúga um allt á meðan hann sat sem forseti Bandaríkjanna. Þessu greinir hann frá í nýrri bók sem gefin verður seinna út í júlí. The Guardian hefur fengið aðgang að bókinni áður en hún verður gefin út.
Bannon var pólitískur ráðgjafi Trump, en hann entist ekki lengi í því starfi, eftir ár í starfi var hann rekinn af Trump. Í framboði Trump til endurkjörs í forsetakosningunum árið 2020 var Bannon hins vegar aftur ráðinn sem ráðgjafi Trump.
Bannon hefur áður sagt opinberlega að Trump hafi aldrei logið, en svo virðist sem hann breyti þeirri umsögn í bókinni, sem titluð er „The Big Lie: Election Chaos, Political Opportunism and the State of American Politics After 2020. Johnathan Lemire skrifaði bókina og ræðir meðal annars við Bannon í henni.
Sem forseti var Donald Trump þekktur fyrir að ljúga til þess að láta sjálfan sig líta betur út. Greining frá Washington Post segir trump hafa logið rúmlega þrjátíu þúsund sinnum á meðan hann var forseti.
Titillinn á bók Lemire vísar í þá stöðu sem kom upp í Bandarískum stjórnmálum eftir sigur Joe Biden í forsetakosningunum árið 2020, Trump var ekki tilbúinn að viðurkenna tap og því ýtti hann undir sögusagnir um kosningasvindl, sem síðar varð til þess að æstur múgur réðst á þinghúsið í Bandaríkjunum 6. janúar 2021.
Fyrr í þessari viku var birt upptaka af Bannon þar sem hann segir félögum sínum frá því að Trump hygðist lýsa yfir sigri á kosninganóttinni, sama hver úrslitin yrðu.
Trump gerði það að lokum ekki en Bannon hélt áfram að vera ráðgjafi Trump eftir kosningaósigurinn. Bannon hélt áfram að reyna að halda Trump við völdin í Bandaríkjunum.
Í bókinni frá Lemire greinir hann frá því að Bannon hafi sagt að 6. janúar yrði dagur sem yrði heimsþekktur en það var einmitt dagurinn sem Trump sagði stuðningsmönnum sínum að „berjast“ og ganga að þinghúsinu, með tilheyrandi afleiðingum.