Steinunn Ása Þorvaldsdóttir segir fullorðna einstaklinga með þroskahömlun hafa gleymst í röðun í bólusetningar. Hún var í gær bólusett í Orkuhúsinu á Suðurlandsbraut eftir að hún hringdi í Heilsugæsluna til að minna á sig.

„Mér finnst þetta mikill skandall og ég hef áhyggjur af því að fatlað fólk bara gleymist,“ segir Steinunn Ása í samtali við Fréttablaðið.

„Ég held að þetta hafi verið óvart en ég fékk ekkert sms en átti að fara í bólusetningu fyrir löngu.“ Steinunn Ása lýsir erfiðu samtali sem hún átti við Heilsugæsluna þar sem hún ýmist grét eða hló. Telur hún upplýsingagáttina, þar á meðal vefsíðan Heilsuvera, vera ólæsilega fyrir fólk með þroskahömlun.

„Það er án efa rétt að það þarf að efla upplýsingamiðlun til þeirra sem eru með þroskahömlun.“

Þórólfur Guðnason bólusettur í lok apríl.
Fréttablaðið/Stefán Karlsson
Alma Möller þegar hún var bólusett.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Þroskahömlun ekki forsenda fyrir forgangi

Forgangsröðun í bólusetningar er á vegum sóttvarnalæknis og Heilsugæslunnar. Aðspurð hvort fólk með þroskahömlun hafi gleymst segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, það byggt á misskilningi; Greiningin þroskahömlun sem slík sé ekki forsenda fyrir forgangi.

„Þau eru alls ekki gleymd. Forgangur miðast við þætti eins og hvort undirliggjandi sjúkdómar gera einstaklinga mjög veika af COVID-19,“ segir Sigríður Dóra og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir tekur í sama streng.

„Þau eru alls ekki gleymd,“ segir Sigríður Dóra.
Mynd: Almannavarnir

„Þessi hópur var tekinn inn á sambýlum og svo hefur hann verið tekinn í heimahúsum. Þegar við erum að tala um forgangshópa þá erum við að tala um einstaklinga sem geta farið illa út úr COVID. Þroskahömlun ein og sér er kannski ekki áhættuþáttur fyrir slæma COVID sýkingu nema að þroskahamlaðir geta verið með aðra sjúkdóma sem setja þá í forgang,“ útskýrir Þórólfur.

Steinunn Ása ræddi einnig við Ölmu D. Möller landlækni um hvernig best væri að aðlaga kerfið að öllum. „Þetta er svo ólæsilegt kerfi. Ég veit til dæmis ekki í hvaða röð ég er eða hvaða hópi ég tilheyri, hvort ég hefði átt að fara í bólusetningu í gær eða fyrir viku. Ég þurfti að berjast fyrir því að komast í bólusetningu,“ segir Steinunn Ása.

Landlæknir segir dýrmætt að heyra sjónarmið Steinunnar og tekur undir með henni, að það megi aðlaga kerfið betur að þörfum fatlaðs fólk.

„Það er án efa rétt að það þarf að efla upplýsingamiðlun til þeirra sem eru með þroskahömlun,“ segir Alma í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Steinunn Ása og Andri Freyr voru bólusett í gær í Orkuhúsinu. Ljósmyndara Fréttablaðsins var ekki hleypt inn í Orkuhúsið og smellti því af mynd fyrir utan að bólusetningu lokinni.
Fréttablaðið/Stefán Karlsson