„Ég held að mér hafi aldrei þótt jafn vænt um þessa hérna og akkúrat núna. Vegna þess að á þessum tímum þá er ótrúlega mikilvægt að fá að vita, finna og skynja að þið fagfólkið og áhorfendur kunnið að meta það sem við gerum.

Vegna þess að ekki kann lögreglan að meta það sem vílar ekki fyrir sér að kalla blaðamenn í yfirheyrslu og krefja þá um nöfn heimildamanna, hverja við hittum, hvenær, hvers vegna og með hvaða gögn eins og ekkert sé eðlilegra,“ sagði Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks, þegar hún tók á móti verðlaunum Kveiks sem Frétta- eða viðtalsþáttur ársins á Edduverðlaununum í gær.

Líkt og greint hefur verið frá er Þóra ein fjögurra blaðamanna með stöðu sakbornings í máli Páls Steingrímssonar, skipstjóra Samherja. Blaðamennirnir voru yfirheyrðir af lögreglunni á Norðurlandi eystra í ágúst.

Aðstöðumunur

Páll hefur nú tjáð sig um málið á Facebook-síðu sinni en hann segist ítrekað hafa bitið í tunguna á sér vegna síendurtekinna rangfærslna frá RÚV vegna málsins en vegna yfirlýsingar Þóru í gærkvöldi geti hann ekki orða bundist. Þá segist Páll ekki í sömu aðstöðu og Þóra til að koma sínum sjónarmiðum vegna málsins á framfæri.

„Kannski er hið fyrra rétt en hin staðhæfingin er hugarburður hennar til að gera sjálfa sig að fórnarlambi og afsaka það sem hún hefur gert. Á það hef ég margsinnis bent en reyndar er ég ekki í sömu aðstöðu og Þóra við að koma mínum sjónarmiðum á framfæri, þar sem hún hefur ríkisfjölmiðil landsins og nokkrar hjáleigur meðan ég hef bara Facebook vegg minn, það sjá allir sem vilja sjá að á þessu töluverður aðstöðumunur,“ segir Páll meðal annars í færslu sinni.

Lá á sjúkrahúsi

Í máli Páls liggur fyrir játning um að eitrað hafi verið fyrir honum með svefnlyfjum og í kjölfarið hafi hann verið sendur á sjúkrahús í Reykjavík.

Aðilinn sem játaði byrlunina gekkst einnig við því að hafa verið með síma Páls á meðan hann lá á sjúkrahúsi, skoðað innihald símans án heimildar ásamt því að afhenda fjölmiðlafólki símann.

Ekki kemur fram hvaða fjölmiðlafólk fékk símann afhentan en í gögnum málsins kemur fram að síminn hafi verið afhentur í heild sinni.

Í höndum lögreglu

Páll segir að það sé meðal annars til skoðunar hjá lögreglu hver afritaði símann hans og segir hann afritaða símann enn til notkunar til að reyna komast yfir gögn í hans fórum. „Sá angi málsins er líka í höndum lögreglu.“

Að sögn Páls er aðilinn sem byrlaði honum og tók símann veikur og segir hann Þóru hafa hvatt viðkomandi áfram og beðið um að senda sér sem mestar upplýsingar. „Ekki lét hún það duga heldur ræddi einnig við viðkomandi tveimur klukkutímum áður en þessi veiki einstaklingur fór í skýrslutöku í fyrsta sinn hjá lögreglu,“ segir Páll jafnframt í færslu sinni og bætir við að Þóra hafi nýtt yfirburðastöðu sína til að kreista upplýsingar út úr aðilanum.

„Úr þessu vann hún, á launum hjá Ríkisútvarpinu, sem birtist svo undir nöfnum annarra fjölmiðla.“

Færslu Páls má lesa í heild sinni hér að neðan.

Þrjú dómstig

Upphaflega voru blaðamennirnir fjórir kallaðir til yfirheyrslu í febrúar síðastliðnum en Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður á Stundinni og einn sakborninga í málinu, óskaði eftir því að dómstóll skæri úr um það hvort lögreglan hefði heimild til að yfirheyra hann. Fór málið að lokum í gegnum dómstigin þrjú.

Héraðsdómur úrskurðaði að lögreglu hafi ekki verið heimilt að veita honum réttarstöðu grunaðs manns í málinu en þeim úrskurði var síðan snúið við í Landsrétti. Aðalsteinn kærði úrskurð Landsréttar til Hæstaréttar sem vísaði málinu frá dómi.

Yfirheyrslum lokið

Eftir dóm Hæstaréttar í máli Aðalsteins hefði lögreglu ekki verið neitt að vanbúnaði að boða blaðamennina til yfirheyrsla hefði ekki verið fyrir nýja kröfu frá Þóru.

Hún óskaði eftir því að Eyþór Þorbergsson, staðgengill lögreglustjórans á Akureyri og aðstoðarsaksóknari, ásamt öðrum starfsmönnum embættisins yrði vikið úr sæti við rannsókn á meintum lögbrotum þeirra vegna vanhæfis en þeirri kröfu var hafnað.

Blaðamennirnir fjórir voru að endingu yfirheyrðir í lok ágústmánaðar af lögreglunni á Norðurlandi eystra sem fer með rannsókn málsins.