Arnar Þór Jónsson, lögmaður og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir orð Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, sem hann lét falla í fjölmiðlum í síðustu viku um að ekki sé mikil stemning fyrir takmörkunum nú þegar Covid-19 smit hafa aukist á ný og fleiri þarfnast innlagnar á spítala vegna veirunnar.
Arnar Þór gagnrýnir Þórólf í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag og segir ummæli Þórólfs til marks um nýtt og ískyggilegt stjórnarfar sem hann hafi varað við síðastliðin tvö ár.
Vald og ótti sameinast
„Ummælin um „stemningu“ sem forsendu valdbeitingar opinbera þann stjórnarfarslega háska sem íslensk stjórnmál hafa ratað í,“ skrifar Arnar Þór og heldur áfram: „Þau eru til merkis um öfugþróun sem beina verður kastljósinu að: Lýðræðið deyr og réttarríkið sundrast þegar vald og ótti sameinast; þegar stjórnvöld og stórfyrirtæki ganga í eina sæng; þegar fjölmiðlar ganga gagnrýnislaust í þjónustu valdhafa; þegar fræðimenn kjósa starfsöryggi fremur en sannleiksleit; þegar embættismenn setja eigin frama ofar stjórnarskrá; þegar óttasleginn almenningur afsalar sér frelsi og réttindum í hendur manna sem boða „lausnir“. Allt eru þetta þekkt stef í alræðisríkjum, þar sem stjórnvöld ala á ógn í þeim tilgangi að treysta völd sín.“
Blikkandi viðvörunarljós
„Nýjustu ummæli Þórólfs um skort á „stemningu“ ættu að virka sem blikkandi viðvörunarljós um þá hættu sem steðjar að stjórn landsins. Hlutverk sóttvarnalæknis er að veita ráðgjöf út frá vísindalegum staðreyndum, ekki út frá „stemningu“ í þjóðfélaginu á hverjum tíma,“ skrifar Arnar Þór meðal annars í grein sinni.
Í því samhengi bendir hann á greinarmun: „Einræðisstjórnir beita grímulausu valdi, en í alræðisríkjum er valdbeiting réttlætt með skírskotun til „stuðnings almennings“.“
Að sögn Arnar Þórs er ögurstund að renna upp og sjálfsákvörðunarréttur manna og þjóða sé nú margvíslega ógnað.