Arnar Þór Jónsson, lögmaður og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir orð Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, sem hann lét falla í fjölmiðlum í síðustu viku um að ekki sé mikil stemning fyrir takmörkunum nú þegar Covid-19 smit hafa aukist á ný og fleiri þarfnast innlagnar á spítala vegna veirunnar.

Arnar Þór gagnrýnir Þórólf í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag og segir ummæli Þórólfs til marks um nýtt og ískyggilegt stjórnarfar sem hann hafi varað við síðastliðin tvö ár.

Vald og ótti sameinast

„Um­mæl­in um „stemn­ingu“ sem for­sendu vald­beit­ing­ar op­in­bera þann stjórn­ar­fars­lega háska sem ís­lensk stjórn­mál hafa ratað í,“ skrifar Arnar Þór og heldur áfram: „Þau eru til merk­is um öfugþróun sem beina verður kast­ljós­inu að: Lýðræðið deyr og rétt­ar­ríkið sundr­ast þegar vald og ótti sam­ein­ast; þegar stjórn­völd og stór­fyr­ir­tæki ganga í eina sæng; þegar fjöl­miðlar ganga gagn­rýn­is­laust í þjón­ustu vald­hafa; þegar fræðimenn kjósa starfs­ör­yggi frem­ur en sann­leiks­leit; þegar emb­ætt­is­menn setja eig­in frama ofar stjórn­ar­skrá; þegar ótta­sleg­inn al­menn­ing­ur af­sal­ar sér frelsi og rétt­ind­um í hend­ur manna sem boða „lausn­ir“. Allt eru þetta þekkt stef í alræðis­ríkj­um, þar sem stjórn­völd ala á ógn í þeim til­gangi að treysta völd sín.“

Blikkandi viðvörunarljós

„Nýjustu ummæli Þórólfs um skort á „stemningu“ ættu að virka sem blikkandi viðvörunarljós um þá hættu sem steðjar að stjórn landsins. Hlutverk sóttvarnalæknis er að veita ráðgjöf út frá vísindalegum staðreyndum, ekki út frá „stemningu“ í þjóðfélaginu á hverjum tíma,“ skrifar Arnar Þór meðal annars í grein sinni.

Í því samhengi bendir hann á greinarmun: „Einræðisstjórnir beita grímulausu valdi, en í alræðisríkjum er valdbeiting réttlætt með skírskotun til „stuðnings almennings“.“

Að sögn Arnar Þórs er ögurstund að renna upp og sjálfsákvörðunarréttur manna og þjóða sé nú margvíslega ógnað.