Hertar sam­komu­tak­markanir verða í gildi yfir páskana í Þýska­landi í von um að hefta út­breiðslu CO­VID-19. Yfir sjálfa páskana, 1. til 5. apríl, munu ekki fleiri en fimm full­orðnir ein­staklingar frá tveimur mis­munandi heimilum mega koma saman.

Sí­fellt fleiri Þjóð­verjar eru nú að smitast af nýju af­brigði veirunnar, sem varð fyrst vart í Bret­landi, en Angela Merkel, kanslari Þýska­lands, sagði að um væri að ræða „nýjan far­aldur.“

„Staðan er al­var­leg. Til­felli eru í veldis­vexti og gjör­gæslu­deildir eru að fyllast á ný,“ sagði Merkel á blaða­manna­fundi um málið í gær en til­fellum hefur fjölgað hratt eftir að þeim fór fækkandi síðast­liðnar vikur.

Ný­gengni smita á 100 þúsund íbúa er nú 107 en miðað var við að allt yfir 100 myndi reynast gjör­gæslu­deildum of mikið.

Að því er kemur fram í frétt Guar­dian um málið stóð til að opna veitinga­staði og menningar­hús á ný en þar sem far­aldurinn er í vexti var á­kveðið að bíða með allt slíkt til 18. apríl næst­komandi. Þá hefur ríkis­stjórnin ráð­lagt fólki að ferðast sem minnst og hvatt alla þá sem geta unnið heima til að gera það.

Reyna að flýta bólusetningum

Frá upp­hafi far­aldursins hafa tæp­lega 2,7 milljón til­felli smits verið stað­fest í Þýska­landi og rúm­lega 75 þúsund látist eftir að hafa smitast. Þjóð­verjar binda nú miklar vonir við bólu­setningu en rúm­lega 7,5 milljón manns hafa þegar fengið alla vega einn skammt af bólu­efni gegn CO­VID-19.

Tafir á fram­leiðslu AstraZene­ca hafa sett strik í reikninginn hjá Þýska­landi líkt og öðrum löndum í Evrópu en Merkel sagðist styðja við Evrópu­sam­bandið og á­ætlanir þeirra til að stöðva út­flutning bólu­efnisins til landa utan Evrópu ef ekki er staðið við dreifingar­á­ætlun.

Leið­togar Evrópu­sam­bandsins munu koma saman næst­komandi fimmtu­dag til að ræða út­breiðslu CO­VID-19 í álfunni og mögu­leikann á að stöðva sendingar til landa utan Evrópu.