Karlotta H. Margrétardóttir, hársnyrtir og förðunarfræðingur hjá Onix og RÚV, segist hafa verið beitt hrottalegu kynferðisofbeldi af hendi þekkts manns.

Hún greinir frá upplifun sinni á samfélagsmiðlum en vill ekki staðfesta við Fréttablaðið um hvaða mann sé að ræða. Hún gefur Fréttablaðinu góðfúslegt leyfi að deila frásögn sinni.

Karlotta segist lengi hafa velt vöngum um það hvort hún ætti að tjá sig um atvikið en hún hefur upplifað ógleði, hræðslu, reiði og vanlíðan í kjölfar þess að brotið var á henni. Aðspurð segist hún hafa heyrt að hún sé ekki ein um að hafa lent í þessum manni en hafi þó ekki fengið staðfestingu um það.

Karlotta við störf á RÚV.

Hún hafi fundið kjarkinn sinn þegar konur úr öllum áttum fóru að stíga fram og skila skömminni. Atvikið sem Karlotta lýsir átti sér stað sumarið 2021.

„Fyrir mánuði síðan fór ég heim með manni sem beitti mig hrottalegu kynferðisofbeldi, tók mig hálstaki og sló mig, svo eitthvað sé nefnt. Öll mín mörk urðu að engu í höndum hans, sama hvað ég reyndi,“ segir Karlotta.

Eftir atvikið var Karlotta að eigin sögn buguð og brotin, reið og sár. Hún upplifi daglega allan tilfinningaskalann sem geri hana úrvinda. Þá vaki það upp reiði að sjá að gerandi hennar fái að ferðast um allt landið frítt í samstarfi við ýmis fyrirtæki, á sama tíma og hún þurfi að sækja sér sálfræðihjálpar.

„Sem betur fer hef ég gott bakland sem stendur þétt við bakið á mér og ég fæ viðeigandi aðstoð við þessu áfalli.“

Um geranda sinn segir Karlotta: „Þessi maður er faðir, sonur, bróðir, vinur og jú ... þjóðþekktur einstaklingur.“

„Eigum við að „nefna“ fleiri svona menn innan Árvaks?“

Fimm þjóðþekktir karlmenn stigu til hliðar eða var sagt upp í síðustu viku vegna ásakana ungrar konu um að þeir hefðu brotið gegn henni.

Þar á meðal fjórir valdamenn í viðskiptalífinu, Arnar Grant, Hreggviður Jónsson, Þórður Már Jóhannesson og Ari Edwald. Hinn fimmti var Logi Bergmann, fjölmiðlamaður og útvarpsmaður á K100.

Eftir að fréttir birtust um að mennirnir fimm hefðu allir stigið til hliðar birti Karlotta færslu á Twitter frá vinkonu sinni.

„Eigum við að „nefna“ fleiri svona menn innan Árvaks? I'll go first: Fyrra nafnið rímar við Tinni, seinna við Töve,“ segir í skjáskotinu sem Karlotta deildi.