„Það sem stingur mann kannski mest er að það er búið að hamra á þessu að koma ekki með ung börn á svæðið, en fólk heldur samt á­fram að koma með þau. Svo sér maður fólkið koma niður, hálf­partinn dragandi eða berandi börnin sem eru náttúru­lega bara upp­gefin,“ segir Steinar Þór Kristins­son, svæðis­stjóri björgunar­sveitarinnar Þor­björns.

Steinar var á vakt við gos­stöðvarnar í Mera­dölum á laugar­daginn og veitti er­lendum ferða­mönnum að­stoð sem voru með tvö börn á leik­skóla­aldri með sér. Fjallað var um málið í fjöl­miðlum í gær. Hann segir fólkið hafa verið ör­magna þegar björgunar­sveitar­mönnum bar að og börnin hrakin og köld.

„Þetta var ekki nota­leg upp­lifun. Maðurinn var að bera tvö börn að framan og aftan. Börnin voru orðin mjög köld og þreytt,“ segir Steinar. Það sem fólk þurfi að hafa í huga áður en lagt er af stað í göngu með börn í burðarpoka sé að börnin séu vel klædd.

„Þegar fólkið sjálft er á hreyfingu er í lagi með hita, en börnin í pokanum eru ekkert að hreyfa sig. Þau kólna,“ segir Steinar.

Steinar segir að að­stæður á fjallinu séu erfiðar yfir­ferðar þar sem mikið sé um stór­grýti. Þetta sé mjög krefjandi og erfið ganga, jafn­vel fyrir vel út­búið full­orðið fólk.

„Það sem nær okkur kannski að­eins upp að kálfa er upp undir hné á þessum börnum. Það er náttúru­lega miklu erfiðara fyrir þau að brölta yfir þetta stór­grýti. Þú getur rétt í­myndað þér hvernig þér liði, troðandi grjót upp að hné eða að­eins ofar, í upp undir sjö tíma eða jafnvel lengur,“ segir Steinar.

Svæðinu í kringum Mera­dali og inn á gosstöðvarnar var lokað í gær vegna veður­að­stæðna. Þá gaf lög­reglu­stjórinn á Suður­nesjum út til­kynningu í morgun um að sama verði upp á teningnum í dag, þar sem veður­út­lit fyrir svæðið sé ekki gott. Sam­hliða lokuninni verði unnið að því að lag­færa göngu­leið A, sem er sú göngu­leið sem flestir fara þegar gengið er að gos­stöðvunum.

„Það er verið að nota tæki­færið á meðan lokun stendur yfir og engin traffík og laga þennan kafla,“ segir Steinar. Að­spurður segist hann ekki vita hversu langan tíma verkið taki eða hve­nær al­menningur megi eiga von á því að geta heim­sótt gos­stöðvarnar.

„Þetta klárast ekki á einum degi. Maskínan er komin á fullt og það er verið að vinna í öllum þessum málum sem þarf að vinna að í tengslum við þetta. Þetta er mikið og stórt verk­efni sem allir leggjast á eitt með,“ segir Steinar.